„Eig­um ekki að hafa of mikl­ar áhyggj­ur af þessu núna“

Horft til suð-suðausturs. Fremst er sporður Langjökuls og vatnið til …
Horft til suð-suðausturs. Fremst er sporður Langjökuls og vatnið til hægri er Hagavatn. mbl.is/RAX

Ekki er óþekkt að það verði þokkalega stórir skjálftar á því svæði þar sem jarðskjálfti, 4,6 að stærð, varð undir Langjökli síðastliðið fimmtudagskvöld.

Þetta segir Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði við HÍ, í samtali við mbl.is, og bendir í því samhengi á skjálfta í Borgarfirði árið 1974.

Í fræðunum eru skjálftar, eins og sá sem varð í undir Langjökli í síðustu viku, kallaðir innplötuskjálftar. Þeim er lýst sem ófyrirsjáanlegum skjálftum utan hefðbundinna skjálftasvæða.

Magnús segir að það sé einfaldlega stundum eins og losa þurfi um spennu í bergi.

„Þetta sést svo sem víða. Það verður skjálfti, í framhaldinu eftirskjálftar og bergið hrekkur eitthvað til,“ segir Magnús.

Magnús Tumi Guðmundsson.
Magnús Tumi Guðmundsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég held að það sé of snemmt að leggja eitthvað of mikið út af þessu. Við þurfum bara að bíða og sjá hvort eitthvað meira fylgi,“ bætir hann við.

Hann segir að innplötuskjálftar geti komið í kjölfar eldsumbrota og nefnir í því samhengi eldgosið í Holuhrauni. Þá hafi komið skjálftahrinur á óvenjulegum stöðum. „Það var eins og eitthvað raskaði ró umhverfisins,“ segir Magnús Tumi.

„Við eigum ekki að hafa of miklar áhyggjur af þessu núna,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka