Þurftu að hafa hraðar hendur vegna olíu á svæðinu

Eldsvoðinn í Grafarholti.
Eldsvoðinn í Grafarholti. mbl.is/Sigurður Bogi

Vel gekk að slökkva töluverðan eld sem stóð upp úr tækjabúnaði á milli hitaveitutanka á Grafarholti í kvöld. Þetta staðfestir Kristján Sigfússon, varðstjóri stoðdeildar hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is.

Eins og mbl.is greindi frá kom eldur upp á milli hitaveitutanka á Grafarholti í Reykjavík í kvöld. Slökkviliðið staðfestir að eldurinn hafi kviknaði í tækjabúnaði sem notaður er við viðhald á tönkunum. 

Að sögn Kristjáns hafði lekið töluverð olía úr olíutanki við hliðina á tækinu sem eldurinn stóð úr. Þurfti slökkviliðið því að hafa hraðar hendur við að hreinsa upp olíuna á svæðinu. 

Óljós upptök

Kristján segir að slökkvistarfið hafi gengið hratt og örugglega fyrir sig þrátt fyrir mikinn eld enda fjórir slökkvibílar á svæðinu. Segir hann það blessunarlegt að ekkert verið í hættu utandyra vegna eldsins en að töluvert tjón hafi orðið á tækjabúnaðinum sem brann. 

Spurður hvort að um íkveikju hafi verið að ræða segir Kristján erfitt að svara því og að upptök eldsins séu óljós. 

Töluverður reykur var fyrir ofan Grafarholtið vegna eldsins.
Töluverður reykur var fyrir ofan Grafarholtið vegna eldsins. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is