Skoðar gjaldtöku bankanna

Lilja segir stærsta verkefni hagstjórnarinnar að ná tökum á verðbólgunni.
Lilja segir stærsta verkefni hagstjórnarinnar að ná tökum á verðbólgunni. Ljósmynd/ Birgir Ísleifur Gunnarsson

Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra hefur skipað starfshóp sem mun greina arðsemi bankanna, samkeppnishæfni bankakerfisins og gjöld sem neytendur borga fyrir bankaþjónustu hér á Íslandi.

Hópurinn mun skoða hvort þessi atriði séu í samræmi við það sem sést á Norðurlöndunum.

„Stærsta verkefni hagstjórnarinnar er að ná tökum á verðbólgunni og ef við lítum á undirþætti verðbólgunnar, þá hefur hún verið knúin áfram af húsnæðisliðnum núna síðustu 18-24 mánuði.

Við þurfum að passa okkur á því að það verði ekki einhver spírall upp á við. Við verðum að vera mjög meðvituð um alla helstu markaði; fjármálamarkaði, dagvörumarkaði, eldsneytismarkaði, byggingavörumarkaði,“ segir Lilja í samtali við mbl.is. Verðbólgan mældist nú síðast 8,8% sem er það hæsta sem hefur sést frá hruni. 

Spurð hvort samkeppnishæfni bankanna og hagsmunir neytenda fari saman svarar Lilja því játandi þar sem ef fákeppni myndast á markaði, þá sjái aðilar sinn hag í því koma inn á markaðinn og undirbjóða ráðandi keppinautum sem þurfa þá að aðlaga sín verð.

„Neytendur eru vel upplýstir en það er auðvitað okkar hlutverk að gefa út og fara yfir þetta með reglubundnum hætti,“ segir Lilja.

Innt eftir því hvort regluverk í fjármálakerfinu verði skoðað segist hún ekki getað fullyrt það, en nýsköpunar- og fjártæknifyrirtækið indó hefur til dæmis gagnrýnt íþyngjandi regluverk fyrir smærri aðila á fjármálamarkaði.

Muni um hverja einustu krónu

„Það er fyrst og fremst verið að skoða þetta út frá neytendum og samfélagsmálum. En það er fulltrúi fjármála- og efnahagsráðherra í hópnum þannig það kann að vera að þetta verði skoðað en ég get ekki fullyrt um það.“

Aðspurð segir Lilja að ef það kemur í ljós að verðlag bankanna sé hærra en gengur og gerist á Norðurlöndunum þurfi þau fjármálafyrirtæki að líta í eigin barm, þar sem það muni um hverja einustu krónu hjá þeim sem eru tekjulægstir, nú þegar stýrivaxtahækkanir eru komnar af stað.

„Ég held að það sé sameiginlegt verkefni okkar allra að ná tökum á verðbólgunni. Allt sem þarf ekki að hækka vegna ytri aðstæðna eða sem leiðir til verðhækkana, við verðum að láta allt slíkt eiga sig. Þetta er stærsta verkefnið okkar næstu 24 mánuðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert