Kom ekki upp hljóði í fyrstu söngtímunum

Það var ekki alltaf augljóst að Salóme Katrín Magnúsdóttir yrði tónlistarkona. Hún var vissulega í kór á Ísafirði sem barn, Perlukórnum svokallaða, og sótti píanó- og danstíma í Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar en var að eigin sögn nokkuð treg til að sinna tónlistinni í æsku.

„Svo þegar ég var 17 ára þá sagði mamma mín: „Jæja, Salóme nú ferð þú að læra söng,“ og ég var bara: „Mmm, ég held ekki.“ Þá hafði ég ekkert verið að syngja síðan ég var barn. Vinkona hennar var að kenna og þær fengu þá hugmynd að það væri gott fyrir mig að fara í söngnám. Og ég gerði það. Mjög hlýðin.“

Söngtímarnir gengu svolítið brösuglega til að byrja með.

„Fyrstu fimm söngtímana söng ég ekki neitt, við spjölluðum bara. Ég þorði því bara ekki, það kom ekkert hljóð. Ætli það hafi ekki verið í fimmta tímanum eða eitthvað, þá gekk eitthvað upp. Þá kom einhver tónn. Og síðan þá hef ég bara verið mjög mikið að syngja.“

Síðan þá hefur Salóme gefið út tvær plötur, sólóplötuna Water og plötuna While We Wait í samstarfi við tónlistarkonurnar Rakel og Zaar, auk stakra laga. 

Salóme Katrín er gestur Ragnheiðar Birgisdóttur í Dagmálum. 

mbl.is