Björgunarsveitir kallaðar út vegna vélarvana báta

Landsbjörg að störfum
Landsbjörg að störfum

Björgunarsveitir sitthvoru megin við Húnaflóa voru kallaðar út í dag vegna vélarvana strandveiðibáta, að því er fram kemur í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

„Rétt upp úr hádegi kallaði Landhelgisgæslan út sveitir frá Hólmavík og Drangsnesi vegna vélarvana báts sem var skammt frá landi vestur af Bjarnarfjarðarnesi. Óskað var eftir björgunarbátum á vettvang en nærstaddur bátur kom honum til bjargar og dró hann til hafnar, eftir að sá vélarvana hafði kastað út akkeri þar sem hann rak í átt að landi. Björgunarbáturinn fylgdi þeim til hafnar,“ segir í tilkynningunni. 

Þá kemur þar fram að fyrir stundu hafi björgunarskipið Húnbjörg á Skagaströnd verið kallað út og sent til móts við annan strandveiðibát sem glímir við einhverskonar vélarbilun.

„Hann er staddur um 20 sjómílur norðvestur af Skagaströnd og því ekki talin mikil hætta á ferðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert