Voru veðurteppt á Fimmvörðuhálsi

Fólkið var hrakið og óskaði eftir aðstoð björgunarsveitanna.
Fólkið var hrakið og óskaði eftir aðstoð björgunarsveitanna. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarsveitir Landsbjargar voru kallaðar út klukkan sex í morgun þegar lítill hópur göngufólks sat veðurtepptur á Fimmvörðuhálsi. Gisti fólkið þar í tjaldi í nótt, var blautt, kalt og hrakið, að sögn Davíðs Más Björgvinssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.

Enginn í hópnum slasaðist að hans sögn en björgunarsveitir komu til hópsins rétt fyrir klukkan tíu í morgun. Búist er við slæmu veðri víða á hálendinu í dag.

Ætti að vera fljótfarin leið

„Það er verið að bíða eftir að hópur björgunarsveitarfólks með sexhjól komist til fólksins, til þess að flytja það að bíl, sem er staðsettur ofarlega í Fimmvörðuhálsi og keyrir það síðan niður. Þetta ætti að vera fljótfarin leið,“ segir Davíð.

Útköll á borð við þessi eru tíð að sögn Davíðs. 

„Þetta er verkefni sem við þekkjum vel á þessum árstíma. Fólk fer á hálendið og ferðast, Íslendingar eða útlendingar sem eru ekki vanir ferðalögum á hálendinu og vanmeta búnaðinn sem þeir eru með.“

Landsbjörg er með hálendisvakt á þremur stöðum á hálendinu til þess að stytta viðbragðstímann þegar útköll verða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert