„Leiðinlegur vindur“ í dag

Snarpar vindhviður verða víða á landinu í dag.
Snarpar vindhviður verða víða á landinu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dagurinn í dag verður vindasamur með suðvestan- og vestanátt á landinu öllu og ætti fólk á ferðinni að huga vel að aðstæðum. Þetta er þó ekki veðrið sem landinn má búast við í sumar, að sögn Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðings Vegagerðarinnar. 

„Í dag er það fyrst og fremst þessi leiðinlegi vindur. Hann er varasamur, sérstaklega því margir eru á ferðinni. Það er þessi lægð sem er að fara fyrir norðan land og hún dregur með sér dálítinn vindstreng úr suðvestri,“ segir Einar. Vindinum fylgir þó milt loft.

Hvasst verður í dag á Suðvestur- og Vesturlandi með lægð sem fer yfir landið. Þá verða staðbundnar, snarpar hviður og sérlega hvasst veður til fjalla og á hálendinu, þar sem dregur úr stormstyrk.

Helgin lítur ágætlega út

„Svo eru blettir þar sem eru leiðinlegar hviður, eins og við Vík í Mýrdalnum í kringum hádegið og enn lengur fyrir austan Skaftafell, á milli Fagurhólsmýrar og Jökulsárlóns. Það er líka varasamt fyrir alla sem eru á ferðinni, ekki bara þá sem eru með hjólhýsi og ferðavagna,“ segir hann. Veðrið þar verður verst á milli klukkan 12.00 og 18.00.

Í þessari vindátt getur þá orðið hvasst nálægt Akureyri á hringveginum. Þar ættu menn að sýna sérstaka varúð að sögn Einars. „Síðan er hvasst víða yfir Holtavörðuheiðina og á Skagafirði,“ segir hann en þó er þar minna um skarpar hviður. 

Veðurspáin lítur hins vegar ágætlega út um helgina, að sögn Einars. Gott er þó að vera á varðbergi þegar spáð er vinhviðum og bíða það af sér. Almennt séð verður veðrið um helgina betra fyrir norðan og austan heldur en sunnan og vestan, auk þess sem helgin verður mildari heldur en sú síðasta.

Veðurvefur mbl.is

Lægðin dregur með sér vindstreng .
Lægðin dregur með sér vindstreng .

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert