Margir illa búnir við gosstöðvarnar í nótt

Áætlður fjöldi göngumanna við gosstöðvarnar á fjórða tímanum í nótt …
Áætlður fjöldi göngumanna við gosstöðvarnar á fjórða tímanum í nótt var á bilinu 70 til 80 manns að sögn lögreglu. mbl.is/Ari Páll

Björgunarsveitarmenn sem stóðu vaktina í nótt segja að margir hafi ekki verið vel búnir til ferðalaga og margir án höfuðljósa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Áætlaður fjöldi göngumanna við gosstöðvarnar á fjórða tímanum í nótt var á bilinu 70 til 80 manns að sögn lögreglu. 

Gönguleiðin hafi reynst mörgum erfið og flytja þurfti einstakling sem hafði snúið sig á ökkla niður af fjalli. Annar göngumaður sem fann til í fæti þurfti aðstoð og einnig sá þriðji, sem hafði hrasað í hrauni.

„Þrátt fyrir margmenni við gosstöðvar má segja að gengið hafi vel en áætlað er að á annað þúsund göngumanna hafi verið á svæðinu í gærkvöldi,“ að því er kemur fram í tilkynningu.

Lífshættulegar gastegundir í dældum

Lögreglan leggur áherslu á mikilvægi þess að hafa í huga að gossvæðið er hættulegt svæði þar sem aðstæður geta breyst skyndilega. Ekki er mælt með því að að dvelja nálægt gosstöðvunum vegna gasmengunar. Þegar vind lægir eykst hættan. Í dældum geta lífshættulegar gastegundir safnast saman.

„Nýjar gossprungur geta opnast með litlum fyrirvara og glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðri og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram sem erfitt getur verið að forðast á hlaupum,“ varar lögreglan við.

Minnt er á gasdreifingarspá og upplýsingar hjá safetravel.is  og Almannavörnum. Göngumenn skuli fara vel klæddir og með nóg nesti sé ætlunin að skoða gosið.

mbl.is