Jarðskjálfti fannst vel á suðvesturhorninu

Hér má sjá hvar upptök skjálftans voru. Fyrr í dag …
Hér má sjá hvar upptök skjálftans voru. Fyrr í dag var einnig jarðskjálfti nálægt Grindavík. skjáskot/map.is

Íbúar á suðvesturhorni landsins urðu vel varir við jarðskjálfta sem reið yfir klukkan 11:52 í dag. Í yfirförnum niðurstöðum á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að skjálftinn hafi verið 4,1 að stærð.

Upptök hans voru á 5,2 kílómetra dýpi, 4,9 kílómetra norðnorðaustan við Krýsuvík, eða í grennd við Kleifarvatn.

Fyrr í dag mældist skjálfti af stærðinni þrír um 6,7 kílómetrum vestn­orðvest­ur af Grinda­vík klukk­an 10.25.

Í sam­tali við mbl.is í morg­un sagði Ein­ar Bessi Gest­sson, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur á Veður­stofu Íslands, að skjálftun­um virt­ist fara fækk­andi, í kjöl­farið þess að það byrjaði að gjósa í Meradölum í síðustu viku.

Ein­ung­is 240 skjálft­ar mæld­ust á Reykja­nesskaga á síðasta sól­ar­hringi, sem er tals­vert minna en dag­ana í aðdrag­anda goss­ins.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is