Doktor í umhverfissálfræði kallar eftir því að litið sé til áhrifa umhverfis á heilsu og vellíðan fólks í þeirri miklu uppbyggingu sem á að eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu og víðar á næstu árum. Hann segir að allt of sjaldan líti sveitarfélög til þeirra þátta og að í borginni megi ýmislegt fara betur.
Doktorinn, Páll Jakob Líndal, hefur sjálfur sérstaklega skoðað tengsl umhverfis við heilsu og vellíðan. Á meðal þátta sem skipta máli í þeim efnum að hans sögn er að ekki sé byggt of þétt, græn svæði séu í hávegum höfð, byggð sé fjölbreytt og allt sé á mannlegum skala – þ.e. í stærðum og víddum sem fólk getur tengt sig við – ekki byggt of hátt eða stórt.
„Við tökum þessa sálrænu þætti ekki nægilega alvarlega. Við erum að byggja hér alveg ofboðslega mikið og við höfum verið að þétta byggð án þess að gera okkur almennilega grein fyrir þessum sálfræðilegu áhrifum,“ segir Páll sem telur að líta ætti sálfræðilega þætti jafn alvarlegum augum og verkfræðilega við uppbyggingu húsa og hverfa.
„Það sem er meginvandamálið frá mínum bæjardyrum séð er að við erum ekki að taka vísindalega, markvissa nálgun á þessa sálrænu þætti. Við erum ekki að taka þá þekkingu og þær aðferðir sem sálfræðin býr yfir og flétta það inn í skipulags- og hönnunarferlana,“ segir Páll.
Hann telur að oft sé lagt upp með góðan ásetning í þessum efnum í uppbyggingu í borginni.
„En leiðin til heljar er líka vörðuð góðum ásetningi. T.d. er gildandi aðalskipulag Reykjavíkur á margan hátt afskaplega spennandi í samhengi við umhverfissálfræði. Það eru mjög mörg góð atriði en svo er spurning hvernig það er framkvæmt og útfært. Það er nokkuð sem maður getur sett stórt spurningarmerki við.“
Páll bendir á að á höfuðborgarsvæðinu hafi verið byggð hverfi, t.a.m. Smárahverfið, þar sem hönnun og skipulag verður til þess að birtuskilyrði eru ekki nægilega góð. Getur það haft slæm áhrif á heilsu og vellíðan fólks. Morgunblaðið fjallaði um sambærilega stöðu í Hlíðarendahverfi fyrir um tveimur árum. Þá eru áform um þéttingu við Ártúnshöfða og í Hamraborg sem Páll telur að þurfi að skoða miklu betur.
„Svo er þetta selt sem lúxus án þess að það sé í raun innistæða fyrir því. Fólk kaupir og kaupir og allt selst vegna þess að það er ekkert annað í boði. Að hluta til er það drifið áfram af því að fólk er að uppfylla sínar grunnþarfir: Að hafa þak yfir höfuðið. Hraðinn og framboðið er með þeim hætti að fólk áttar sig oft ekkert á eða hefur ráðrúm til þess að velta sálrænum áhrifum umhverfisins fyrir sér fyrr en það er orðið um seinan.
Eftir einhvern ákveðinn tíma uppgötvar fólk að þetta sé ekki alveg nægilega gott. Vissulega er það stundum svo að áhrif umhverfis eru mjög hörð og afgerandi en mjög oft seytla þau inn og herða tökin smám saman – hægt og sígandi. Maður verður oft ekkert almennilega var við það,“ segir Páll.
„Þegar þetta er svona seigfljótandi og umhverfið er ekki nógu gott þá hefur það íþyngjandi áhrif á okkur. Óhagstætt umhverfi gerir líf okkar erfiðara. Það hefur síðan neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu okkar sem getur leitt til vanheilsu. Það getur leitt af sér aukinn kostnað fyrir samfélagið og slíkt.“
Nánari umfjöllun um málið má finna í Morgunblaðinu í dag, mánudag.