Brutust inn í lúxusvöruverslun og hlupu í burtu

Starfsmenn Attikk eru sem stendur að meta tjónið og fara …
Starfsmenn Attikk eru sem stendur að meta tjónið og fara yfir hvaða vörum var stolið. Ljósmynd/Aðsend

„Það var svolítið mikið sjokk að koma hingað, allt brotið og búið að brjóta upp læsta skápa hérna inni, brjóta glerið í hurðinni og margt sem var tekið,“ segir Ýr Guðjohnsen, framkvæmdastjóri og eigandi lúxusvöruverslunarinnar Attikk.

Brotist var inn í verslunina að Laugavegi 90 um sexleytið í morgun. Tveir einstaklingar brutu sér leið í gegnum aðalhurðina og fór þjófavarnarkerfi í gang samtímis, auk þess sem allt atvikið náðist á myndskeið úr öryggismyndavél.

„Það er búið að handtaka einn veit ég, en þetta voru tveir einstaklingar. Síðan voru vitni að atvikinu og öryggisvörður Securitas sá þá hlaupa í burtu,“ segir Ýr í samtali við mbl.is.

Gríðarlegar skemmdir urðu á læstum skápum og verðmætum var stolið.
Gríðarlegar skemmdir urðu á læstum skápum og verðmætum var stolið. Ljósmynd/Aðsend

Meira en milljóna króna tjón

Starfsmenn Attikk eru sem stendur að meta tjónið og fara yfir hvaða vörum var stolið eða urðu fyrir skemmdum. „Bara vörurnar – er þetta alveg yfir milljóna króna tjón, svo eru skemmdir á húsnæðinu og húsgögnum. Við þurfum að klára að fara yfir þetta og sjá hvernig gengur með tryggingar og annað.“

Attikk selur lúxus merkjavörur frá merkjum eins og Louis Vuitton, Chanel, Gucci og Prada fyrir hönd þriðja aðila. Eigendur vara hjá Attikk eru beðnir um að sýna biðlund á meðan starfsfólk metur tjónið.

„Þetta er mjög leiðinlegt, sérstaklega líka þar sem við erum nýtt fyrirtæki og erum að byggja okkur upp. Þetta verður alltaf eitthvað tjón fyrir okkur.“

Ýr segir að lokum að einhver röskun gæti verið á afgreiðslutíma í dag, en telur það þó ólíklegt og er stefnt að því að opna verslunina klukkan tólf.

mbl.is