Atvinnuleysi ekki verið minna síðan 2019

Atvinnuleysi í júlí var 3,2% og minnkaði úr 3,3% í …
Atvinnuleysi í júlí var 3,2% og minnkaði úr 3,3% í júní. mbl.is/Kristinn Magnússon

Atvinnuleysi er enn á niðurleið, en er áfram mikið meðal erlendra ríkisborgara. Þetta kemur fram í hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Atvinnuleysi í júlí var 3,2% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Það minnkaði úr 3,3% í júní. Alls voru 6.560 á atvinnuleysisskrá í lok júlí.

Atvinnuleysi í einstökum mánuði hefur ekki verið minna síðan í mars 2019 og atvinnuleysisstigið er nú orðið lægra en það var áður en faraldurinn skall á. Atvinnulausum fækkaði í öllum atvinnugreinum milli loka júní og júlí.

„Skýtur nokkuð skökku við“

Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi verði svipað í ágúst og var í júlí, rúmlega 3%.

Áætlað er að atvinnuleysi erlendra ríkisborgara hafi verið 7,3% í júlí, eða rúmlega tvöfalt meira en atvinnuleysi allra.

„Mikilvægi erlends starfsfólks hefur orðið sífellt meira í íslensku atvinnulífi og skýtur þessi staða því nokkuð skökku við,“ segir í hagsjá Landsbankans.

mbl.is