Eitt ár fyrir kókaínsmygl

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Florence Osahenwinda í tólf mánaða fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot.

Hún var ákærð af héraðssaksóknara fyrir að hafa þann 24. júní flutt til landsins 746,35 grömm af kókaíni ætluðu til söludreifingar hér á landi. Fíkniefnin flutti hún innvortis frá Hollandi til Brussel í Belgíu og þaðan sem farþegi með flugi til Íslands.

Konan játaði afdráttarlaust sök fyrir dómi, en hún hafði ekki áður orðið uppvís að refsiverðri háttsemi svo kunnugt sé, að því er kemur fram í dóminum.

Í dómsorði kemur fram að til frádráttar 12 mánaða fangelsinu kemur gæsluvarðhald sem hún sætti frá 25. júní síðastliðnum.

Henni ber að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns upp á 976.500 krónur ásamt öðrum sakarkostnaði sem nemur um 580 þúsund krónum.

mbl.is