Ólína ráðin deildarforseti á Bifröst

Ólína hefur störf þann 1. september næstkomandi.
Ólína hefur störf þann 1. september næstkomandi. mbl.is/Hari

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, rithöfundur, fyrrverandi þingmaður, skólameistari og borgarfulltrúi, hefur verð ráðin deildarforseti við félagsvísindadeild Háskólans á Bifröst. Þetta kemur fram á heimasíðu háskólans en Ólína greinir einnig frá ráðningunni á Facebook-síðu sinni.

„Ég er full tilhlökkunar að takast á við spennandi verkefni sem forseti Félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst, skóla með sérstöðu og ótal sóknarfæri, flott starfsfólk og stjórnendur,“ skrifar Ólína á Facebook, en hún hefur störf þann 1. september næstkomandi.

Ólína lauk BA námi í íslenskum bókmenntum og heimspeki við Háskóla Íslands. Að því loknu lauk hún magisterprófi og síðan doktorsprófi í íslenskum bókmenntum og þjóðfræðum, einnig við HÍ, en doktorsverkefni sitt byggði hún á þjóðfræðilegri og bókmenntafræðilegri rannsókn á galdratrú í málskjölum og munnmælum 17. aldar.

Jafnframt nam Ólína stjórnunarfræði við viðskipta- og hagfræðideild HÍ og er með kennsluréttindi á framhaldsskólastigi.

Frá árinu 2016 hefur Ólína verið sjálfstætt starfandi fræðimaður, rithöfundur, bókmenntagagnrýnandi á RÚV og Fréttablaðinu og kennari, þ.á.m. við Háskólann á Bifröst á síðastliðnum tveimur skólaárum.

Ólína hefur víðtæka stjórnunarreynslu, var m.a. skólameistari við Menntaskólann á Ísafirði í hálfan áratug. Auk þess býr Ólína að 14 ára kennslureynslu á háskólastigi. Tók hún m.a. þátt í að móta og byggja þjóðfræði upp sem kennslu- og fræðigrein við Háskóla Íslands.

Ólína sat á Alþingi fyrir Norðvesturkjördæmi á árunum 2009-2013 og 2015-2016. Var hún m.a. formaður umhverfisnefndar, varaformaður atvinnuveganefndar, forseti Vestnorræna ráðsins og varaforseti Norðurlandsráðs. Þá var Ólína borgarfulltrúi í Reykjavík á árunum 1990-1994.

Auk ýmissa fræðigreina liggja átta útgefnar bækur, þar af sex fræði- og heimildarit, eftir Ólínu. Árið 2019 hlaut hún svo tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita fyrir bókina Lífgrös og leyndir dómar. Lækningar, töfrar og trú í sögulegu ljósi.

mbl.is