Algengara að brotaþolar þurfi að víkja

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta.
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, segir miklu algengara að brotaþolar víki úr skólum eða öðrum skipulagsheildum eða aðstæðum frekar en gerendur þegar kynferðisofbeldisbrot koma upp. Það sé meðal þess sem reynt sé að breyta með því að hafa í gildi fullnægjandi viðbragðsáætlanir við slíkum brotum. 

Megi ekki bíða eftir sönnun til að bregðast við

Steinunn tekur undir þá gagnrýni á viðbrögð skólastjórnenda FSu að útgangspunktur viðbragða megi ekki vera „saklaus uns sekt er sönnuð“. Hún segir að skólastjórnendur geti mögulega aldrei sannað brotið. 

„Það eina sem þeir hafa í höndunum er frásögn nemanda sem tjáir þeim að hann hafi verið beittur ofbeldi af samnemanda og svo frásögn annars nemanda sem ýmist viðurkennir brotið, telur að um misskilning hafi verið að ræða eða afneitar því. Í öllu falli situr viðkomandi uppi með nemanda sem telur að á sér hafi verið brotið. Við því þarf að bregðast, hvort sem brotið verður einhvern tímann sannað eða ekki,“ segir Steinunn. 

Skólastjórnendur setja fólk ekki í fangelsi

„Það er misskilningur í gangi um hugmyndina um sakleysi uns sekt er sönnuð. Það á við um þegar ríkið grípur til refsingar gagnvart hinum almenna borgara. Þetta er grundvallarregla í réttarkerfinu okkar, vegna þess að ríkið má ekki svipta fólk frelsi sínu nema það sé búið að sanna sekt þess – og það þýðir að setja fólk í fangelsi. Skólastjórnendur setja fólk ekki í fangelsi. Það þýðir að þeir þurfa ekki að sanna brotið til að geta gripið til einhverra aðgerða.“

Steinunn segir að ef nemandi leiti til skólastjórnanda og segi að brotið hafi verið á sér, þá geti skólastjórnandinn lítið annað gert en að taka nemandann trúarlegan og bregðast við. Þá þarf útgangspunkturinn að vera: Hvað þarf brotaþolinn til þess að geta haldið áfram í námi?  

Farvegur kynferðisafbrotamála sé skýr

Stígamót hefur veitt ráðgjöf þar sem kynferðisafbrot hafa komið upp. Spurð, hvað einkenni góða viðbragðsáætlun vegna slíkra mála, segir Steinunn: 

„Það er ekkert einfalt svar við því hvað felst í góðri viðbragðsáætlun. Það sem þó þarf að vera búið að tryggja, þegar upp koma brot sem tengjast kynferðisofbeldi, hver ætlar að taka við því og í hvaða farveg það á að fara.“

Hún bætir við að gott sé að vera búin að skilgreina hvers konar úrræði standi brotaþola til boða, til þess að gerandi geti tekið ábyrgð á brotinu og til þess að tryggja öryggi og vellíðan nemenda við skólann. 

Steinunn segir að allt snúi þetta að því að það sé búið að skilgreina hlutverk þeirra sem að koma þegar brot er framið. 

„Hver gerir hvað. Sumar viðbragðsáætlanir setja það í hendur ákveðins einstaklings innan skólans að vera sá sem ræðir við alla aðila um málið; brotaþola, geranda og vitni ef því er að skipta, eða einhverjir aðrir til þess að ná yfirsýn yfir málavöxtu.“

Enn fremur segir Steinunn að mikilvægt sé að fyrir liggi hvaða úrræði standi til boða. „Hvað er hægt að gera til að aðstoða brotaþola? Er hægt að bjóða sálfræðiaðstoð eða ráðgjafaviðtöl? Hvernig er hægt að koma til móts við þarfir brotaþola? Eins með geranda, þar þarf að liggja fyrir hvaða úrræði þurfa að vera til staðar,“ segir Steinunn. Þá bætir hún við að hugsa þurfi aðstæður beggja út frá öllum mögulegum hliðum, hvort annar, báðir eða allir séu undir 18 ára aldri, hvort um sé að ræða tvo nemendur eða mögulega starfsmenn og svo framvegis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert