Starfsfólkið hafi aldrei unnið 16 tíma á dag

Veitingastaðurinn Bambus er staðsettur í Borgartúni.
Veitingastaðurinn Bambus er staðsettur í Borgartúni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögmaður eigenda veitingastaðanna Bambus og Flame segir það rangt og gegn betri vitund Fagfélaganna að halda því fram að starfsfólk veitingastaðanna hafi unnið allt að sextán tíma á dag, sex daga vikunnar. Vissulega hafi verið unnið fimm til sex daga vikunnar en vinnudagarnir hafi yfirleitt verið átta til níu tímar, stundum tíu tímar, en á móti hafi komið fimm til sjö tíma vinnudagar.

Þetta styðja gögn sem mbl.is hefur undir höndum og Fagfélögin notuðust við í sínum útreikningum á launakröfum starfsfólksins, sem hljóða upp á þrettán milljónir króna.

Gögnin sýna að öðru hverju hafi verið unnar tólf til þrettán tíma vaktir, en Hildur Ýr Viðarsdóttir, lögmaður eigendanna, segir í samtali við mbl.is að þessar löngu vaktir skýrist af því að starfsfólkið hafi unnið við take away þjónustu fyrir hádegi en hafi svo fengið frí í þrjá tíma og mætt aftur til vinnu eftir hádegi. Tímarnir hafi hins vegar verið skráðir eins og fólkið hafi verið við vinnu allan daginn. Þá tekur Hildur fram að fólkið hafi aðeins unnið á Flame en ekki Bambus.

Eigi eftir að taka tillit til fyrirframgreiðslna 

Eigendur veitingastaðanna hafa verið sakaðir um stórfelldan launaþjófnað og hefur Benóný Harðarson, forstöðumaður kjarasviðs Fagfélaganna, sagt að starfsfólkið hafi unnið allt að sextán tíma á daga, sex daga vikunnar. Ekki hafi verið greitt vaktaálag yfirvinna eða orlof.

Hann sagði í samtali við mbl.is í dag að óvenjulegt væri að svona há krafa kæmi fram fyrir svo fáa starfsmenn sem hafi verið við vinnu í svo skamman tíma. kröfurnar snúi þó einungis að því að ná fram lágmarkslaunum í samræmi við þann taxta sem fólkið hafi verið ráðið inn á.

Hildur segir það vera í skoðun hvort þau telji útreikninga Fagfélaganna á launakröfunum rétta, en það liggi allavega fyrir að fullyrðingar um þessar löngu vinnudaga standist ekki. Þá eigi eftir að taka tillit til fyrirframgreiðslna starfsfólksins, sem hafi ekki verið skráðar í öllum tilfellum.

Mismunur á launum allt upp í 700 þúsund

Þá sé það einnig rangt að starfsfólkið hafi ekki fengið greitt orlof. Orlofið hafi verið tekið út sem frí og þeir sem höfðu unnið skemur en í ár, áttu eftir að fara í sitt orlof. 

Einnig hafi starfsfólkið, að hennar sögn, búið frítt í íbúð á vegum vinnuveitandans, þar sem innifalið var internet, rafmagn og hiti. Þetta séu hlunnindi sem ekki hafi verið tekin með inn í myndina

Samkvæmt gögnunum virðist starfsfólkið hafa verið á föstum launum þrátt fyrir misjafnt hafi verið hve marga tíma á mánuði var unnið. Launin voru frá 368 þúsund krónum á mánuði upp í 460 þúsund krónur á mánuði. Mismunurinn á þeim mánaðalaunum sem fólkið fékk og útreikningum Fagfélaganna, sem miðast við lágmarkslaun, er allt upp í 700 þúsund krónur á mánuði, samkvæmt gögnunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert