Skortur nánast hvert sem litið er

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélag Íslands.
Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélag Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta eru mikil vonbrigði og okkur finnst þetta endurspegla að það sé ekki alveg verið að hlusta á það sem við erum að reyna að koma á framfæri, um að það sé skortur nánast hvert sem litið er í kerfinu. Þessi fjárlög eru ekki að hafa mikil áhrif þar á, það er alveg ljóst,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, í samtali við mbl.is um fjárlagafrumvarpið sem var kynnt á mánudaginn.

„Þetta er rétt til að halda í horfinu og varla það ef maður er að horfa til mjög hraðrar öldrunar þjóðarinnar á allra næstu árum, íbúafjölgun og gríðarlegrar fjölgunar ferðamanna,“ segir Steinunn.

„Kerfið er í mjög hratt vaxandi fjárþörf og við erum alls ekki að sjá að sé verið að koma til móts við það og hvað þá að það verði hægt að gera einhver áttök á biðlistum eins og verið er að ræða,“ segir Steinunn og bætir við: „Þetta er engin sókn, þetta er hreinræktuð vörn.“

Ekkert svigrúm til að „taka neitt nýtt í notkun“

Steinunn bendir einnig á samdrátt í framlögum til hjúkrunarheimila og endurhæfingar í fjármálaáætlun til ársins 2024 og 2025.

„Er það eðlilegt í ljósi allrar umræðunnar um mjög hratt vaxandi fjölda aldraðra?“

Hún segir einnig vera samdrátt í liðnum „lyf og lækningatæki“.

„Lyfjakostnaður er sívaxandi hluti af þeim kostnaði sem fer til heilbrigðiskerfisins. Við viljum geta boðið upp á dýrari og nútímalegri meðferðir en áður,  t.d. við krabbameini. Maður sér ekki í þessum fjárlögum að það sé neitt svigrúm til að taka neitt nýtt í notkun.“

Steinunn segir að fjárfesting í heilbrigðiskerfinu ætti að skila sér í betri heilsu almennings.

„Ef við getum ekki fjárfest þar, þá töpum við annars staðar á móti.“

Fjárlög geri ekki ráð fyrir samningum

„Við sjáum ekki að það sé neitt fjármagn til að semja við sjálfstætt starfandi lækna,“ segir Steinunn en samningar við þá runnu út árið 2018.

„Ég vona að í áframhaldandi umræðu um fjárlögin að þessu verði bætt inn. Við hjá læknafélaginu leggjum gríðarlega þunga áherslu á að þetta verði leyst, þessi samningskrísa.

Þetta er búið að ganga allt of langt og allt of lengi og veldur því að almenningur er að borga óhóflega hátt hlutfall af þessum kostnaði við læknisþjónustu,“ segir Steinunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert