Vilja jafna muninn á atkvæðavægi kjósenda

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Hákon

Þingmenn Viðreisnar, Pírata, Samfylkingarinnar og Flokks fólksins hafa lagt fram frumvarp þess efnis að jafna atkvæðavægi kjósenda.

Kjördæmakerfið á Íslandi eins og það er nú leyfir mest tvöfaldan mun á vægi atkvæða eftir búsetu kjósenda. 

Markmið frumvarpsins eru tvenns konar. Annars vegar að tryggja að samræmi sé með þingmannatölu og atkvæðafylgi hvers þingflokks. Hins vegar að gera vægi atkvæða milli kjördæma eins jafnt og stjórnarskrá heimilar.

Einn maður – eitt atkvæði

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, kynnti frumvarpið á Alþingi í vikunni. Hún segir í samtali við mbl.is að hún vilji jafna vægið milli flokkanna og atkvæðavægið sjálft þannig að áhrif hvers kjósanda verði eins jafnt og hægt er óháð því hvar hann býr á landinu.

„Fyrir það fyrsta þá höfum við lagt áherslu á að breyta stjórnarskránni, en eins og við vitum tekur það tíma og þó að fólk kalli eftir atkvæðavægi, þá einn maður – eitt atkvæði, hefur það ekki náðst í gegn.“

„Þá viljum við nýta núverandi ramma til að reyna að ná skrefum í átt að jafnara atkvæðavægi. Við viljum færa til þingmannafjölda, fjölga jöfnunarsætum svo að bæði verði meira jafnvægi milli þingflokka og kjördæma,“ segir Þorgerður.

Í frumvarpinu segir að ekki hægt sé að tryggja fyllilega jafnt vægi atkvæða án þess að afnema kjördæmaskiptingu landsins. Kjördæmaskipan sé bundin í stjórnarskrá og henni verði ekki breytt með almennum lögum.

Það hindrar ekki að hægt er að jafna vægi atkvæða til muna með breytingu á lögum. Þá er lagt til að af hverjum þingkosningum loknum muni landskjörstjórn ákvarða tölu þingsæta í hverju kjördæmi upp á nýtt.

Jómfrúarræða Þorgerðar árið 1999 snerist um regluna um einn mann – eitt atkvæði. Sama ár var núverandi skiptingu komið á með stjórnarskrárbreytingu.

Hvert kjördæmi hljóti sex kjördæmissæti

Lagt er til að hvert kjördæmi hljóti sex kjördæmissæti. Tölu kjósenda í hverju kjördæmi er síðan deilt með tölunum 6, 7, 8 o.s.frv. 27 hæstu útkomutölurnar ráða því hversu mörg þingsæti umfram hin sex föstu verða í hverju kjördæmi í næstu kosningum.

Fyrsta deilitalan er hér jöfn tölu þeirra sæta sem þegar hefur verið ráðstafað sem sex stjórnarskrárbundnum kjördæmissætum.

Hér er beitt deilireglu þeirri sem kennd er við John Adams, annan forseta Bandaríkjanna, og má líta á hana sem tilbrigði við reglu D'Hondts, en kjördæmissætum er úthlutað samkvæmt þess síðarnefnda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka