Eru lögreglunemar fordómafullir?

Eyrún Eyþórsdóttir, lektor í lögreglufræðum og doktor í mannfræði, segir …
Eyrún Eyþórsdóttir, lektor í lögreglufræðum og doktor í mannfræði, segir fólk vita að fordómar séu rangir og þess vegna viðurkenni það ekki fordóma þegar það er spurt. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var árleg ráðstefna evrópskra afbrotafræðinga, Eurocrim heitir hún,“ segir Eyrún Eyþórsdóttir, lektor í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri og doktor í mannfræði, í samtali við mbl.is um ráðstefnu sem þær Margrét Valdimarsdóttir, dósent við sama skóla, sóttu í Málaga á Spáni síðustu daga en þar voru einnig staddir dr. Helgi Gunnlaugsson, eitt helsta átorítet Íslands um afbrotamenn og svarta iðju þeirra, og Guðmundur Ævar Oddsson, dósent við félagsvísinda- og lagadeild HA.

„Þetta er árleg ráðstefna þar sem afbrotafræðingar í Evrópu koma fram og kynna rannsóknir sínar,“ segir Eyrún en þær Margrét kynntu könnun sem lögð hefur verið fyrir alla nýnema í lögreglufræðum og snýr að viðhorfi þeirra gagnvart minnihlutahópum, svo sem innflytjendum, samkyn- eða hinseginhneigðum, fylgjendum trúarbragða sem ekki njóta hve mestrar fylgispektar, fólki sem ekki skartar sama hörundslit og Evrópubúar flestir og svo framvegis.

Kvenkyns lögreglunemar jákvæðari

„Þessi könnun var lögð fyrir nýnema og munum við svo leggja hana fyrir að nýju er þeir verða lengra komnir í náminu til að athuga hvort viðhorf þeirra hafi breyst,“ útskýrir Eyrún og bætir því við að þar með liggi enginn samanburður enn þá fyrir.

„Lögreglunemar eru við upphaf náms frekar jákvæðir gagnvart því að læra um málefni minnihlutahópa en svo eigum við auðvitað eftir að leggja könnunina fyrir aftur svo við vitum ekki enn hvort viðhorf þeirra breytist er á líður,“ segir lektorinn og bætir því við að kvenkyns lögreglunemar séu jákvæðari gagnvart fræðslu um málefni minnihlutahópa en karlkyns skólabræður þeirra. Bæði kynin eigi þó sameiginlegt að vera síst jákvæð gagnvart málefnum hinsegin fólks.

„Svo er ætlunin að sjá hvort viðhorfin breytist er líður á námið og þá hvort þessi viðhorf breytist í raun innan lögreglunnar,“ segir Eyrún.

Vilja mæla skoðanir verðandi lögreglumanna

Bendir hún á neikvætt viðhorf lögreglu víða erlendis gagnvart minnihlutahópum og eðlilega þurfi að kanna hvar íslensk löggæsla standi í þeim málum. „Fólk sem tilheyrir minnihlutahópum upplifir oft fordóma, það upplifir að því sé mismunað, það hljóti verri þjónustu og svo framvegis. Þetta er mjög áberandi í Bandaríkjunum en einnig í Evrópu og á Norðurlöndunum. Við viljum mæla hverjar skoðanir verðandi lögreglumanna á Íslandi eru á þessum vettvangi,“ segir Eyrún.

Eru skoðanir á þessum vettvangi kannaðar þegar fólk sækir um í lögreglunni eða um nám í lögreglufræðum?

„Nei, það er mjög erfitt að mæla þetta, fólk veit að fordómar eru rangir og þess vegna viðurkennir það ekki slíka fordóma þegar það er spurt, það er svo erfitt að benda á einhver viðhorf sem ekki eru rétt, innan gæsalappa, í inntökuviðtölum vegna þess að fólk segist einfaldlega ekki hafa þau,“ útskýrir Eyrún, „þess vegna spyrjum við ekki beint um fordóma í þessari könnun, við spyrjum um viðhorf fólks til að læra um þessa hluti,“ heldur hún áfram.

Hvað voru aðrir að fjalla um í Málaga?

„Það voru 2.000 manns á þessari ráðstefnu og þarna var fjallað um allt milli himins og jarðar, þetta er svo stórt, í hvert skipti sem Eurocrim er haldin er sett upp sérstök heimasíða þar sem áhugasamir geta kynnt sér það sem til umræðu er hverju sinni,“ segir Eyrún Eyþórsdóttir lektor í samtali við mbl.is um Eurocrim-ráðstefnu afbrotafræðinga í Málaga á Spáni.

mbl.is