Flugeldar í pakkanum en ekki sprengja

Öllum flugferðum var frestað í gær vegna sprengjuhótunarinnar sem barst.
Öllum flugferðum var frestað í gær vegna sprengjuhótunarinnar sem barst. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning seint í gærkvöldi um pakka um borð í fraktflugvél sem innihéldi sprengju. Við nánari skoðun kom í ljós að í pakkanum voru flugeldar og eftirlíkingar af skotvopnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Allri um­ferð til og frá Keflavíkurflugvell­i var frestað í gær eft­ir að hót­un barst um að sprengja væri um borð í frakt­flug­vél sem lenti á vell­in­um en hún var á leið frá Köln í Þýskalandi til Kentucky í Bandaríkjunum.

Kom í ljós eftir nánari skoðun

„Vinna sprengjusérfræðinga sérsveitar ríkislögreglustjóra og sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar gekk vel og pakkinn fannst eftir leit. Pakkinn var tekinn til frekari skoðunar, þar sem við gegnumlýsingu kom í ljós að hann innihélt torkennilega hluti,“ segir í tilkynningunni.

„Við nánari skoðun kom í ljós kom að í pakkanum voru flugeldar og eftirlíkingar af skotvopnum.“

Segir í tilkynningunni að aðgerðum lögreglu vegna sprengjuhótunarinnar hafi verið lokið klukkan 08.15 í morgun.

Þá segir að enginn hafi verið í hættu á meðan aðgerðum stóð og gekk verkefnið vel. Lögreglan á Suðurnesjum er með málið til rannsóknar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert