Rannsóknin snýr að pappakassa og spíraflösku

Lögreglan er í samskiptum við FBI vegna rannsóknar á sprengjuhótun …
Lögreglan er í samskiptum við FBI vegna rannsóknar á sprengjuhótun í vél sem lenti á Keflavíkurflugvelli fyrir viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki liggur enn fyrir hvers konar vökvi var í flöskunni sem fannst í fraktflugvél sem lenti á Keflavíkurflugvelli í kjölfar sprengjuhótunar síðastliðið miðvikudagskvöld, að sögn Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum.

Spurður hvort mögulega hafi verið um einhverskonar sprengiefni að ræða, segist Úlfar ekki vita til þess.

„Þær upplýsingar liggja allavega ekki fyrir.“

Engin sprengja fannst við leit í vélinni, en þar fannst aftur á móti pakki með flugeldum, eftirlíkingu af skotvopnum og flaskan með vökvanum. Allt hlutir sem ekki eiga að vera um borð í flugvélum.

„Rannsóknin stendur yfir og hún er í höndum tæknideildar lögreglu. Síðan erum við í samskiptum í FBI og veitum þeim upplýsingar ef þess þarf,“ segir Úlfar um stöðu rannsóknarinnar.

Ekki vitað hvað þeim sem hótaði gekk til

Ekki liggur fyrir hvað þeim sem hótaði sprengjunni gekk til. 

„Nú þekkjum við það ekki, þetta gerist auðvitað í háloftunum og í raun og veru ekki í okkar höndum. Aftur á móti er til skoðunar einn pappakassi og spíraflaska. Það er í raun og veru það sem við erum að skoða. Rannsókn tæknideildar beinist að því.“

Úlfar hefur ekki upplýsingar um það hvernig sprengjuhótunin barst, hvort það hafi verið símleiðis eða með öðrum hætti.

Í vélinni var þriggja manna áhöfn og var hún á leið frá Köln í Þýskalandi til Kentucky í Bandaríkjunum. Sprengjuhótunin barst til flutningafyrirtækisins UPS á meðan vélin var á flugi.

Tvö mál með skömmu millibili 

Ekki er langt síðan lenda þurfti annarri flugvél á Keflavíkurflugvelli vegna sprengjuhótunar, en það gerðist síðast í lok júlí á þessu ári. Þá var um að ræða farþegaflugvél sem var á leið frá Frankfurt í Þýskalandi til Seattle í Bandríkjunum með 266 manns innanborðs.

Þá var sprengjuhótunin skrifuð á spegil í flugvélinni á meðan hún var á flugi, en engin sprengja fannst við leit í vélinni.

Úlfar telur að það sé tilfallandi að svona mál komi upp með svo skömmu millibili. Þau séu því ekki endilega að færast í aukana.

„Ég myndi segja að þetta sé tilfallandi en eftir sem áður líður ekki langur tími þarna á milli. Þetta eru alltaf dálítið stórar aðgerðir þegar út í þetta er farið. Fyrir lögreglu og aðra viðbragðsaðila.“

Aðspurður hvort talin sé þörf á auka viðbragð vegna svona mála segir Úlfar:

„Þegar svona gerist þá þurfum við auðvitað að skoða og fara yfir það sem gert var. Okkar plön og aðgerðir. Það er í eðlilegu ferli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert