Flaska með vökva fannst í pakkanum

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert

Flaska með einhvers konar vökva fannst í fraktflugvélinni sem lenti á Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi í kjölfar sprengjuhótunar.

Sprengjusveitir sérsveitar ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunnar fóru inn í flugvélina, eftir að búið var að draga hana yfir á öryggissvæði á flugvellinum, sem tók töluverðan tíma. Að sögn Ásmundar Rúnars Gylfasonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum, unnu sprengjusveitirnar sig að ákveðnum pakka í vélinni sem hótunin sneri að og notuðu gegnumlýsingartæki til að fara í gegnum innihaldið.

Í ljós kom að hann innihélt mögulega torkennilega hluti og var hann þar af leiðandi opnaður. Þar komu í ljós flugeldar, eftirlíkingar af skotvopnum og flaskan með vökvanum, sem er nú til rannsóknar. „Þetta eru klárlega hlutir sem eiga ekki að vera í flugvélum,“ segir Ásmundur Rúnar, spurður út í mögulega sprengihættu af völdum flöskunnar og vökvans, og nefnir hann einnig flugeldana í því samhengi.

Þriggja manna áhöfn

Þriggja manna áhöfn var í fraktvélinni, sem var á leið frá Kölnar í Þýskalandi til Kentucky í Bandaríkjunum. Hótunin barst til flutningafyrirtækisins UPS á meðan vélin var á flugi en Ásmundur Rúnar getur ekki staðfest að hún hafi borist símleiðis. Í framhaldinu hafði UPS samband við áhöfn vélarinnar og upplýsti hana um hótunina. Eftir það var ákveðið að lenda strax á næsta flugvelli, sem var Keflavíkurflugvöllur.

30 viðbragðsaðilar 

Ásmundur Rúnar kveðst ekkert geta tjáð sig um hver eða hverjir stóðu á bak við sprengjuhótunina og segir rannsókn málsins á algjörum frumstigum. Verður hún unnin í samvinnu við erlend lögregluyfirvöld.

Hann segir viðbúnaðinn hvorki hafa verið meiri né minni en gengur og gerist í verkefnum sem þessum. Um 30 manns komu að verkefninu, þar á meðal sprengjusveitirnar tvær, lögreglan á Suðurnesjum og starfsmenn Isavia. Einnig komu brunavarnir Suðurnesja að málinu, sem sendu tvo sjúkrabíla á staðinn í öryggisskyni, að sögn Ingva Þórs Hákonarsonar, varðstjóra brunvarna Suðurnesja. Annar þeirra var á staðnum til klukkan 8 í morgun, eða þangað til búið var að yfirfara flugvélina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert