Áverkar í andliti eftir ítrekuð höfuðhögg

Þrjár líkamsárásir voru tilkynntar í nótt.
Þrjár líkamsárásir voru tilkynntar í nótt. mbl.is/Ari

Ráðist var á mann á veitingastað í Breiðholtinu í gær þar sem hann var staddur með fjölskyldu sinni að kaupa mat. Árásin var tilefnislaus, að því er fram kemur í dagbók lögreglu, en árásaraðilinn var í annarlegu ástandi. Sá var handtekinn og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Ekkert var skráð um áverka.

Þá voru tvær aðrar líkamsárásir tilkynntar til lögreglu í nótt, báðar í miðbæ Reykjavíkur.

Laust fyrir klukkan fjögur í nótt var lögregla kölluð á vettvang en árásaraðilar voru farnir þegar hún kom. Árásarþoli kvartaði undan verki í höfði og var fluttur með sjúkrabifreið á bráðadeild til aðhlynningar.

Þá var einn handtekinn eftir líkamsárás sem tilkynnt var um laust eftir klukkan fimm í nótt og var sá vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins. Árásarþola var ekið á bráðadeild til aðhlynningar en hann var með áverka í andliti eftir ítrekuð höfuðhögg.

mbl.is