Stofna heilsuklasa að norrænni fyrirmynd

Hluti gesta og Freyr Ketilsson, stofnandi Heilsutækniklasans.
Hluti gesta og Freyr Ketilsson, stofnandi Heilsutækniklasans. Ljósmynd/Aðsend

Stofnfundur Heilsutækniklasans var haldinn í gær að viðstöddu fjölmenni úr líf- og heilsutæknigeiranum á Íslandi. Heilsuklasanum er ætlað að vera vettvangur samstarfs ólíkra aðila í heilbrigðisþjónustu um nýsköpun í heilsutækni. Sambærilegir klasar hafa verið starfræktir með góðum árangri á Norðurlöndunum, að því er fram kemur í tilkynningu. 

„Heilsutækniklasinn er vettvangur til að stuðla að auknu samstarfi, framþróun í heilsutækni á Íslandi. Þróun heilsutækni hjálpar okkur að takast á við þær áskoranir sem fram undan eru í heilbrigðismálum, meðal annars við að gera heilbrigðisþjónustu aðgengilegri fyrir fleiri jarðarbúa, stuðla að hagræðingu og skilvirkni og flýta aðstoð. Við viljum leiða saman frumkvöðla, fyrirtæki og hið opinbera til að virkja og nýta þau tækifæri sem felast í þróun heilsutækni á Íslandi,“ er haft eftir Frey Ketilssyni, stofnanda Heilsutækniklasans, í tilkynningu. 

Fulltrúar nýsköpunarfyrirtækja í heilsutækni fluttu erindi á fundinum. Þá var vinna við skýrslu um heilsutækni á Íslandi kynnt. 

Skýrslunni er ætlað gefa yfirsýn yfir stöðu heilsutækni á Íslandi og þau tækifæri sem felast í henni. Unnið hefur verið að skýrslunni síðustu mánuði og áætlað er að hún komi út í nóvember. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert