Heimilislausir héldu setuverkfall í gistiskýli

Mótmælin voru haldin í neyðaskýlinu á Grandagarði 1a.
Mótmælin voru haldin í neyðaskýlinu á Grandagarði 1a. mbl.is/Sigtryggur Sigtryggsson

Viðmót, samtök um mannúðlega vímuefnastefnu á Íslandi, héldu setuverkfall í neyðaskýlinu á Grandagarði 1a, sem er úrræði fyrir heimilislausa karlmenn á vegum Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, í dag.

Meðlimir Viðmóts yfirgáfu ekki neyðarskýlið klukkan 10:00 í dag þegar úrræðið á að loka, en neyðarskýlin eru opin alla daga frá klukkan 17:00 til klukkan 10:00 næsta dag.

Vilja eins úrræði fyrir karla

Viðmót setur fram tvær kröfur til borgarinnar. 

Í fyrsta lagi er þess krafist að Reykjavíkurborg taki ábyrgð á því að ekki sé starfrækt dagsetur fyrir heimilislausa karlmenn á daginn og komi slíku á laggirnar strax, annað hvort sjálf eða í samstarfi við aðra. Slíkt úrræði er í boði fyrir heimilislausar konur. Nefnist það Skjólið og er rekið af Hjálparstarfi kirkjunnar.

Þá er í öðru lagi farið fram á það að öll neyðarskýli Reykjavíkurborgar loki ekki yfir daginn sé spáð gulri viðvörun eða hærra.

Snýst um öryggi og heilsufar

Í tilkynningu frá Viðmótum segir að aðsókn í neyðarskýli hafi aukist gríðarlega á þessu ári og oft hafi þau verið yfirfull. Þá er bent á að þar sem að neyðskýlin séu lokuð á daginn þurfa þeir sem reiði sig á neyðarskýlin að brúa af bilið á hverjum degi frá kl 10:00 til 17:00, í allskonar veðri og heilsufarsástandi.

„Það er að koma vetur og það er ekki í lagi að þegar að veðrið er svo slæmt að skólar á höfuðborgarsvæðinu skikka forsjáraðila til að sækja börnin sín að þá séu öll neyðarskýlin lokuð og að heimilislausir karlmenn hafi ekkert aðsetur yfir daginn.

Þetta er mannréttindamál og snýst um öryggi og heilsufar okkar, við verðum að hafa samastað yfir daginn, þar sem er þurrt og hlýtt ásamt því að hafa aðgang að salernis- og hreinlætisaðstöðu. Við viljum að þetta vandamál verði leyst sem fyrst og getum ekki sætt okkur við enn einn veturinn í viðbót af óbreyttu ástandi,“ segir í tilkynningu frá Viðmótum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert