Setja fjármuni í kaup á 1.000 svefnöndunarvélum

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita Sjúkratryggingum Íslands fjármagn til kaupa á 1.000 svefnöndunarvélum til meðhöndlunar á kæfisvefni en rúmlega 1.000 einstaklingar bíða nú meðferðar við kæfisvefni og er biðtíminn um 12 mánuðir.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Ákvörðunin tengist aukinni getu Landspítala til að veita meðferð við kæfisvefni með ráðningu aðstoðarfólks við eininguna sem kemur að þessari þjónustu. Með átakinu stefnir Landspítali að því að bið eftir meðferð styttist verulega og verði í framtíðinni aðeins nokkrar vikur.

Heilsufarslegur ávinningur þessa átaks er verulegur þar sem ómeðhöndlaður kæfisvefn getur haft margvíslegar alvarlegar afleiðingar. T.a.m. getur kæfisvefn aukið slysahættu viðkomandi vegna þreytu og einbeitingarskorts. Þá fylgja kæfisvefni auknar líkur á háþrýstingi og hjartaáföllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert