Móttökustöðin skapað umferð, öngþveiti og slysahættu

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir að grenndarstöðvar verði byggðar upp …
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir að grenndarstöðvar verði byggðar upp í hverfum bæjarins. Ljósmynd/Aðsend

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, segir bæjarbúa Kópavogs ekki þurfa að óttast að geta ekki losað sorpið sitt þótt móttökustöð Sorpu á Dalvegi í Kópavogi verði lokað. Staðsetningin hafi nokkra ókosti í för með sér, svo sem öngþveiti og slysahættu.

„Þessi ákvörðun tekur ekki gildi fyrr en í september 2024. Í millitíðinni ætlum við að byggja upp grenndarstöðvar í hverfum Kópavogs,“ segir Ásdís. 

Ekki í samræmi við gildandi skipulag

Hún segir veru móttökustöðvarinnar hafa skapað mikla umferð með tilheyrandi öngþveiti og slysahættu. Starfsemin sé ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag sem gerir ráð fyrir verslun og þjónustu á svæðinu.

Stöðin sé þá staðsett við Kópavogsdal, eina af perlum bæjarins. „Bæjarbúar hafa kallað eftir því að þarna verði fjölbreytt þjónusta fyrir gangandi og akandi. Við erum að hlusta á þau sjónarmið og vinna samkvæmt gildandi stefnu bæjarins,“ segir hún. Mikilvægt sé að þar verði aðgengi að verslun og þjónustu.

Lóðinni úthlutað til bráðabirgða árið 1991

Í samstarfssamningi meirihlutans í Kópavogi stendur að hugað yrði að flutningi Sorpu en vera móttökustöðvarinnar á Dalvegi er ekki samkvæmt aðalskipulagi bæjarins.

Vekur þá Ásdís athygli á því að lóðinni hafi verið úthlutað til bráðabirgða árið 1991, fyrir rétt rúmlega þremur áratugum síðan.

„Þess vegna kom okkur í opna skjöldu að forsvarsmenn Sorpu væru hissa á þessari ákvörðun þegar aðdragandinn er þetta langur,“ segir Ásdís.  

Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpu, sagðist í samtali við Morgunblaðið í gær ekki viss um að íbúar Kópavogs yrðu ánægðir með þessa tilhögun, sem hann kallaði þjónustuskerðingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert