„Eru bara mjög mikið veikir einstaklingar“

Árni Tómas Ragnarsson gigtlæknir hefur um tveggja ára skeið skrifað …
Árni Tómas Ragnarsson gigtlæknir hefur um tveggja ára skeið skrifað upp á morfínlyf til að létta líf langt genginna sprautufíkla og gera þeim kleift að komast gegnum daginn án innbrota og þjófnaðar. Hann segir hlutverk lækna að lina þjáningar fólks og skorar á landlækni að taka á málefnum fíkla. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég hef starfað sem læknir í 40 ár og í því felst að minnka skaðann af sjúkdómum fólks og láta því líða betur,“ segir Árni Tómas Ragnarsson gigtlæknir í samtali við mbl.is, en hann er höfundur greinar sem birtist í Morgunblaðinu miðvikudaginn 2. nóvember undir fyrirsögninni „Skaðaminnkun“.

Greinir Árni Tómas þar frá því hvernig honum hafi runnið til rifja bágborið ástand fíkla er til hans leituðu og höfðu sprautað sig með morfínlyfjum um árabil, jafnvel frá unglingsárum, og voru komnir á vonarvöl tveimur áratugum síðar.

„Öllum er sama og fyrirlíta þá. Fjölskyldan líka. Læknar líka. Fíklunum finnst þeir vera að drukkna, en það eru fáir sem vilja draga þá upp úr og hugsanlega „óhreinka“ þar með hendur sínar,“ skrifar læknirinn og lýsir því í framhaldinu hvernig hann hafi sett sig í samband við aðstandendur skaðaminnkunarverkefnisins Frú Ragnheiðar sem á vegum Rauða krossins rekur svokallað færanlegt neyslurými sem fíklar geta leitað í eftir ýmiss konar aðstoð, hreinum nálum, ráðgjöf, saumatöku og sýklalyfjameðferð.

Fannst þetta andstyggilegt

„Þetta er alveg dásamlegt fyrirtæki,“ segir Árni Tómas og á við Frú Ragnheiði. „Ég sá þetta sjálfur í Stokkhólmi þar sem ég var við nám fyrir 30 árum, hvernig fólk kom inn [á sjúkrahús], annaðhvort við dauðans dyr eftir að hafa tekið of stóran skammt eða veikt og illa farið í fráhvörfum. Svo um leið og búið var að afeitra fólkið hljóp það bara út í buskann og hvarf,“ segir læknirinn frá.

„Þetta er bara eins og að vera með langt genginn …
„Þetta er bara eins og að vera með langt genginn krabbameinssjúkling sem búið er að gera allt fyrir og bíður bara eftir endalokunum.“ Ljósmynd/Aðsend

„Mér fannst þetta alltaf andstyggilegt, að þessu fólki væri ekki sinnt betur, bæði hér og þar,“ heldur Árni Tómas áfram og segir frá því hvernig hann hafi fengið ábendingar frá starfsfólki Frú Ragnheiðar um það hverjir stæðu höllustum fæti og hverjum væri treystandi.

„Þarna var búið að reyna allt til að koma þeim [fíklunum] á réttan kjöl og ekkert hafði gengið. Þetta er bara eins og að vera með langt genginn krabbameinssjúkling sem búið er að gera allt fyrir og bíður bara eftir endalokunum,“ segir Árni Tómas sem þá hafi farið að íhuga hvernig færi ef hann útvegaði þeim verst settu hreint efni uppáskrifað með lyfseðli til að bæta lífskjör þeirra auk þess að losa fíklana undan þeirri kvöð að standa í sífelldum afbrotum til að kaupa efni af misjöfnum gæðum á götunni.

Fannst það bara það eina rétta

„Ég gat ekki séð neitt á móti því, en tjónið sem þetta fólk getur valdið með innbrotum og öðru er heilmikið, án þess að vilja það, allir sem ég hef hitt úr þessum hópi eru góðir í eðli sínu. Enginn vill þurfa að standa í þessu á þennan hátt til að fá skammtinn sinn,“ segir Árni Tómas sem í framhaldinu hafi tekið að skrifa upp á morfínlyf fyrir lítinn hóp fíkla sem hann valdi.

„Það er skylda okkar lækna að sinna skjólstæðingum okkar þannig að þeim líði sem best og þess vegna fór ég að skrifa upp á þessi lyf, mér fannst það bara það eina rétta. Ég hef ekki séð neinn sem fór illa út úr þessu,“ segir gigtlæknirinn frá en í grein hans í Morgunblaðinu má lesa um hvernig líðan skjólstæðinga hans, og fleiri lækna sem gripu til sömu aðgerða, stórbatnaði og margir hafi tekið stórt skref út í lífið, útvegað sér vinnu og betra húsnæði. „[K]víðinn hefur minnkað og þeir þurfa ekki lengur að stela til að geta lifað af,“ skrifar Árni Tómas þar.

Árni Tómas ber Frú Ragnheiði og aðstandendum þess verkefnis Rauða …
Árni Tómas ber Frú Ragnheiði og aðstandendum þess verkefnis Rauða krossins vel söguna og kveðst hafa átt í farsælu samstarfi við fólk þar um að draga úr neyð langt leiddra fíkla sem „öllum er sama um og allir fyrirlíta“. Ljósmynd/Rauði krossinn á höfuðborgarsvæðinu

„Þetta hef ég fengið staðfest bæði frá þeim sjálfum, aðstandendum þeirra og Frú Ragnheiði. Enginn þeirra hefur fengið „overdose“ [of stóran skammt] eins og gjarnan gerist þegar verið er að kaupa efnin á götunni og maður veit ekkert hvað maður er að fá. Þetta er með því jákvæðasta sem ég hef gert í lífinu, þetta eru ekki nema tvö ár um það bil sem þetta hefur staðið,“ segir gigtlæknirinn sem býr yfir fjögurra áratuga starfsreynslu.

Írski læknirinn sem sprautaði sig daglega

Hefur þetta samstarf hans og fleiri lækna um að skrifa upp á morfínlyf fyrir fíkla farið hátt?

„Ja, þetta er ekki beint samstarf, ég hef hitt einn þessara lækna einu sinni og veit af fleirum en þetta er ekki þannig að við séum einhver grúppa sem erum að sinna þessu. Við erum í samstarfi við Frú Ragnheiði til að fá til okkar líklega kandídata til að hjálpa og svo fylgjumst við með þessum einstaklingum og hvernig þeim farnast,“ svarar Árni Tómas.

Kveður hann verkefnið hafa gengið vel og nefnir húsnæði og vinnu, eins og hann skrifar um í grein sinni, „og allir fá betri líðan,“ segir hann og svarar því aðspurður að fólk geti vel plummað sig á vinnumarkaði þótt það sprauti sig með morfíni, fái það bara hreint efni og sé laust úr vítahring afbrota og örvæntingarfullrar fjáröflunar fyrir næsta skammti af efni sem það viti aldrei almennilega hvað innihaldi sé það keypt af götusölum.

„Og nú skal ég segja þér sögu,“ heldur Árni Tómas áfram um þátttöku morfínneytenda á vinnumarkaði. „Þegar ég var í læknadeildinni og var í lyfjafræði, þá kenndi Þorkell Jóhannesson hana, og þegar kom að kaflanum um morfín sagði hann okkur sögu af lækni á Írlandi sem hafði skrifað út morfín fyrir sjálfan sig og sprautað sig með því í 40 ár. Þetta var mikils metinn borgari í sínu samfélagi og virtur læknir,“ segir Árni Tómas af kolleganum írska.

„Þetta gekk allt saman bara mjög vel þangað til hann varð sjötugur og missti lækningaleyfið, þá fór allt til fjandans þegar hann gat ekki skrifað út á sig lyfin lengur,“ lýkur frásögninni. „Morfín er ekki drepandi lyf nema í „overdose“, en ef efnið er óhreint geta því fylgt sýkingar svo ekki sé minnst á óhreinar nálar og þá sjúkdóma sem þaðan geta komið.“

Hálfgerð sefjun um þessi lyf

Árni Tómas hefur skrifað fjölda greina um málefnið og vitnar nú í eina sem birtist eftir hann í Morgunblaðinu síðsumars. „Þá hafði yfirlæknirinn á slysó verið í viðtali í sjónvarpinu og verið að þusa eitthvað yfir notkun á Parkódíni og alls konar efnum sem gera fólki í raun ekki neitt séu þau rétt notuð. Þá skrifaði ég grein og benti á staðreyndirnar, þetta er eitthvað sem allir vita en enginn þorir að segja, þetta er hálfgerð sefjun um þessi lyf. Og þeir læknar sem eru eitthvað að hjálpa fólki með þetta, þeir eru bara skotnir niður,“ segir Árni Tómas með þunga.

Morfínlyf eru ekki drepandi nema við ofskömmtun, segir Árni Tómas …
Morfínlyf eru ekki drepandi nema við ofskömmtun, segir Árni Tómas og telur þjóðhagslega hagkvæmara að útvega fíklum hrein lyf og hrein áhöld en að kasta þeim út í ystu myrkur fíknar, vonleysis og að lokum dauða. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Hvað í ósköpunum er að því að aðstoða fólk sem er komið á þetta stig í neyslu?“ spyr hann í framhaldinu. „Þetta er bara eins og ef þú værir að drepast í bakinu og ég gæfi þér eitthvað við því,“ segir Árni Tómas sem í grein sinni skorar á landlækni að taka á þessum málaflokki „þannig að þeir sem vilja veita þessa nauðsynlegu heilbrigðisþjónustu þurfi ekki lengur að laumupokast með þetta,“ skrifar hann þar.

Vill læknastofu fyrir fíkla

„Ég var reyndar búinn að segja þeim hvað ég er að gera, auðvitað er landlæknir með lyfjagagnagrunn þar sem sést hvað læknar eru að skrifa út af lyfjum. Þar sést auðvitað að Árni Tómas er farinn að skrifa út miklu meira morfín en áður svo þeir vissu alveg af þessu,“ segir læknirinn sem nú hefur náð eyrum embættisins með skrifum sínum. „Þeir hringdu í mig í dag og ég er að fara á fund á mánudaginn,“ segir hann.

Árni Tómas kveðst vilja sjá sérstaka læknastofu fyrir fíkla þar sem þeir ættu vísan stuðning og meðferð eins og aðrir veikir borgarar. „Því þetta eru bara mjög mikið veikir einstaklingar, því má aldrei gleyma, og þeir eru bara fastir í netinu, búið að reyna aftur og aftur að afeitra þá á stofnunum og útséð um að þeir fái bata,“ segir Árni Tómas Ragnarsson gigtlæknir að lokum og kallar eftir úrbótum til handa fólkinu sem öllum er sama um og allir fyrirlíta, eins og hann orðar það í grein sinni í Morgunblaðinu.

mbl.is