„Þetta er kerfið í dag“

Tónlistarmennirnir heimskunnu í Héraðsdómi Reykjavíkur vorið 2019. Hafði málið þá …
Tónlistarmennirnir heimskunnu í Héraðsdómi Reykjavíkur vorið 2019. Hafði málið þá þegar staðið í þrjú ár og er enn ekki að fullu lokið nú, undir lok ársins 2022. mbl.is/Eggert

„Það er nú það sorglega í þessu öllu saman að þarna er búið að kyrrsetja eignir og menn hafa bara verið með lífið í lúkunum, búnir að vera sakborningar í þessu máli síðan í ársbyrjun 2016,“ segir Bjarnfreður Ólafsson, lögmaður núverandi og fyrrverandi liðsmanna hljómsveitarinnar Sigur Rósar.

Þau vatnaskil urðu 3. nóvember, miðað við dagsetningu erindis, að ríkissaksóknari ákvað að falla frá áfrýjunarmálum á hendur þriggja af fjórum liðsmönnum sveitarinnar í kjölfar sýknu Héraðsdóms Reykjavíkur í skattsvikamálum þeirra í fyrrasumar.

Sýknaði dómurinn ákærðu, þá Jón Þór Birgisson, Orra Pál Dýrason, Georg Holm og Kjartan Sveinsson, og áfrýjaði ríkissaksóknari sýknudómnum. Nú hefur embættið fallið frá áfrýjun allra málanna, nema máls Jóns Þórs sem enn er í ferli hjá saksóknara.

„Þetta er kerfið í dag,“ svarar lögmaðurinn, spurður um margra ára rekstur málsins, „skattyfirvöld eru með allar heimildir í heiminum og ef þau fara af stað í svona málum lenda menn bara í ferli sem lýkur ekkert fyrr en svona áratugur er búinn af lífi þínu,“ heldur Bjarnfreður áfram og kveður marga þætti spila inn í það ferli.

„Ekkert er gert“

„Þetta fer í gegnum svo rosalega mörg stig bara á stjórnsýslustiginu, byrjar hjá skattrannsóknarstjóra, fer svo til ríkisskattstjóra og eftir atvikum til yfirskattanefndar. Svo fer málið til rannsóknar hjá héraðssaksóknara sem er hinn vinkillinn á þessu og þar byrjar allt upp á nýtt. Svo reynast kannski gallar á málatilbúnaði sem varða frávísun og þá skiptist málið upp í frávísunarhluta, sem þarf að klára fyrst, og efnishluta sem svo þarf að fara í. Þetta tekur allt sinn tíma,“ útskýrir Bjarnfreður ferlið.

Rifjar hann upp að í kjölfar sýknudómsins í fyrra hafi ríkissaksóknari þegar tekið ákvörðun um að áfrýja öllum málunum. „Svo sinnir hann þeim bara ekki neitt, ekkert er gert og það er ekki fyrr en við sendum þeim bréf núna í október sem farið er að kíkja á þetta,“ segir Bjarnfreður og telur aðspurður ekki líklegt að nokkuð gerist í máli Jóns Þórs fyrr en á nýju ári. „Ef þeir halda þá áfram með það,“ bætir hann við.

Eignir frystar og dandalast með mál

Hvað tákna þessi málalok þá fyrir þremenningana, annað en að mál þeirra verður ekki tekið fyrir á öðru dómstigi?

„Þetta þýðir að menn telji að það að halda þessu máli áfram sé brot á mannréttindasáttmála Evrópu, þetta sé bara of langur „prósess“, of langur tími þar sem ekkert sé að gerast í þessum málum, það sé bara brot á mannréttindum, þú getur ekki haldið fólki bara og fryst eignir þess og bara dandalast með málið. Þetta eru einstaklingar, fólk af holdi og blóði, þótt þeir séu sakaðir um að hafa brotið einhver lög,“ segir Bjarnfreður.

Hann segir þeim þremenningum, sem lausir eru undan áfrýjun, létt þótt vissulega þyngi það þeim að félagi þeirra eigi enn óafgreitt mál.

Embætti ríkissaksóknara falaðist eftir skriflegu erindi í tölvupósti þegar mbl.is sóttist eftir viðtali um málið og munu athugasemdir þaðan birtast hér á vefnum í fyllingu tímans.

mbl.is