„Risavaxið verkefni fyrir Ísland“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tekur formlega við formennsku í …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tekur formlega við formennsku í Evrópuráðinu af Breifne O’Reilly, fastafulltrúa Írlands gagnvart Evrópuráðinu. Ljósmynd/utanríkisráðuneytið

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir það stórt verkefni að taka að sér formennsku í Evrópuráðinu en að halda leiðtogafund ráðsins sem verður í maí sé „risavaxið verkefni fyrir Ísland“.

Þórdís Kolbrún tók formlega við formennsku Evrópuráðsins fyrir hönd Íslands af Írum á fundi ráðherraráðs Evrópuráðsins í Strassburg í dag. Þórdís stýrði fundinum og kynnti þar um leið formennskuáætlun Íslands. 

Tilkynnt var á mánudaginn að leiðtogafundur Evrópuráðsins yrði haldinn í Reykjavík í maí á næsta ári. Fund­ur­inn verður sá fjórði sem hald­inn verður í sögu ráðsins sem var stofnað árið 1946.

„Fyrir það fyrsta er það stórt verkefni fyrir Ísland að taka að sér formennsku í Evrópuráðinu. Það er orðið mjög langt síðan síðast,“ segir Þórdís Kolbrún í samtali við mbl.is.

Hún segir Evrópuráðið hafa verið stofnað utan um grunngildin mannréttindi, lýðræði, réttarríki. Nú sé vegið að þessum gildum, meðal annars vegna stríðsins í Úkraínu.

„Evrópuráðið var stofnað árið 1949 til að við myndum aldrei aftur koma okkur í þann hrylling sem heimsstyrjaldirnar voru. Núna erum við einfaldlega á þeim stað að við höfum aldrei verið eins nálægt því að koma okkur út í eitthvað slíkt aftur. Þess vegna tökum við hlutverki okkar í þessu verkefni mjög alvarlega og þessu fylgir mikil ábyrgð,“ segir Þórdís Kolbrún.

„Við erum metnaðarfull fyrir hönd verkefnisins og við lítum svo á að það séu táknræn skilaboð í því að það hafi verið vilji til þess að halda leiðtogafund eftir allan þennan tíma, á Íslandi á þessum tímapunkti. Við vitum vissulega ekki hver staðan verður í Úkraínu í vor, og mögulega annars staðar.“

Mikilvægt verkefni á mikilvægum tímapunkti 

„Síðan er þessi sjálfstæða ákvörðun um að halda leiðtogafund Evrópuráðsins sem hefur bara verið haldinn þrisvar áður. Það er viðbót við formennskuverkefnið og formennskuáætlunina og alla þá viðburði. Það er risavaxið verkefni fyrir Ísland og mun reyna á en við hlökkum líka til,“ segir Þórdís Kolbrún.

„Það er mikill fjöldi fólks sem kemur að þessu, bæði á mörgum stigum Evrópuráðsins og heima, fyrst og fremst í utanríkisráðuneytinu og í samstarfi við forsætisráðuneytið.“

„Okkar áherslur í formennskuáætluninni, til hliðar við leiðtogafundinn, eru mannréttindi, lýðræði, réttarríki og svo umhverfismál, börn og ungmenni og jafnréttismál. Það teygir anga sína inn í önnur ráðuneyti,“ segir Þórdís Kolbrún.

Hún segir þetta kalla á aukafundi og viðbótarvinnu en þetta sé gríðarlega mikilvægt verkefni á mikilvægum tímapunkti.

Stærsti alþjóðlegi fundur sem haldinn hefur verið á Íslandi

Leiðtogar allra 46 ríkja Evrópuráðsins eiga boð á fundinn og líklegt er að utanríkisráðherrar landanna mæti einnig. Þeim fylgir töluvert fylgdarlið og líklegt er að einhverjir erlendir fjölmiðlar leggi leið sína til landsins vegna fundarins sem verður haldinn í Hörpu.

„Þetta er stærsti alþjóðlegi fundur sem við höfum haldið á Íslandi ef við lítum til þessara þátta og fjölda. Þetta kallar á mikið og náið samstarf við lögregluna.“

„Vonandi getum við líka leyft okkur að halda fundinn á svolítið íslenskan hátt þar sem fólk finnur fyrir því að það er á Íslandi þar sem við tökum verkefnunum alvarlega þótt við tökum okkur sjálf ekki endilega alltaf gríðarlega alvarlega. Fólk er að koma til lands sem er öruggast í heimi. Vonandi getum við haft umgjörðina þannig fyrir þetta fólk þannig að það muni finna fyrir því og úr hverju íslenskt samfélag er gert.“

Viðbótarkostnaður, umsvif og auglýsing 

„Kostnaðurinn liggur ekki allur fyrir á þessum tímapunkti en þetta er samstarfsverkefni,“ segir Þórdís Kolbrún.

Hún segir kostnaðinn við að halda fundinn skiptast á milli aðildarríkja Evrópuráðsins, Evrópuráðsins sjálfs og svo muni íslenska ríkið borga ákveðinn hluta.

„Vissulega er viðbótarkostnaður sem felst í því að halda fundinn heima en líka mikil umsvif og auglýsing fyrir Ísland,“ segir Þórdís Kolbrún að lokum.

Þórdísar Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Marija Pejčinović Burić, framkvæmdastjóri …
Þórdísar Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Marija Pejčinović Burić, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins. Ljósmynd/Evrópuráðið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert