Margir sátu eftir með sárt ennið í Smáralind

Einhverjir aðdáendur barnabókahöfundarins og leikarans Davidsa Walliams sátu eftir með sárt ennið í Smáralindinni í dag og fengu ekki bók áritaða, þrátt fyrir að hafa beðið lengi í röð fyrir framan verslunina Pennann-Eymundsson.

Walliams þurfti að vera mættur í Bæjarbíó í Hafnarfirði fyrir klukkan 15 þar sem búið var að bóka að hann kæmi fram ásamt Guðna Kolbeinssyni sem túlkar orð hans yfir á íslensku.

Aðdáendur Walliams teygðu sig í átt til hans í von …
Aðdáendur Walliams teygðu sig í átt til hans í von um að fá áritun. mbl.is/Ari Páll

Rithöfundurinn reyndi þó eftir bestu getu að árita sem flestar bækur. Hann lét ekki nægja að árita þar sem hann sat við borð inni í verslun Pennans-Eymundson, heldur hélt hann áfram eftir að hann stóð upp og áritaði bækur standandi í smá tíma áður en hann fékk fylgd út úr versluninni bakdyramegin.

Löng röð hafði myndast í Smáralind um hádegi í dag en Walliams hóf að árita bækur klukkan 13. Blaðamaður mbl.is á vettvangi taldi að þrjú til fjögur hundruð manns hefðu beðið í röð og töluvert öngþveiti myndaðist.

Walliams er einn vinsælasti barnabókahöfundur heims.
Walliams er einn vinsælasti barnabókahöfundur heims. mbl.is/Ari Páll

Walliams, sem er einn vinsælasti barnabókahöfundur heims, er hér á landi í tengslum við bókmenntahátíðina Iceland Noir. Hann mun einnig koma fram í höfuðstöðvum Arion Banka annað kvöld ásamt Ólafi Darra Ólafssyni, en sá viðburður markar upphaf Iceland Noir.

Aðdáendur Walliams stilla sér upp á mynd með kappanum.
Aðdáendur Walliams stilla sér upp á mynd með kappanum. mbl.is/Jón Pétur
Löng röð hefur myndast fyrir framan verslunina.
Löng röð hefur myndast fyrir framan verslunina. mbl.is/Ari Páll
mbl.is