Skýrslan áfellisdómur yfir Bjarna

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir skýrsluna áfellisdóm yfir fjármála- og …
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir skýrsluna áfellisdóm yfir fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að það liggi alveg fyrir, fyrir hvern sem les þessa skýrslu, að þetta er áfellisdómur yfir því hvernig staðið var yfir þessari sölu,“ segir Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Kristrún segir í samtali við mbl.is að margt bendi til þess að mögulega hafi verið farið á skjön við ákvæði laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, sem kveða á um jafnræði bjóðenda og að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hefur …
Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hefur verið gagnrýnd harðlega. Samsett mynd

Leiða þurfi málið til lykta

„Þessi lög voru sérstaklega sett á sínum tíma til að koma í veg fyrir að nákvæmlega svona mál myndu koma upp. Við erum að koma út úr 14 ára tímabili þar sem að mikið hefur verið unnið að því að byggja upp traust á fjármálakerfinu og stjórnmálum út af atburðum sem áttu sér stað á sínum tíma, varðandi einkavæðingu banka, og varðandi hvernig fór með fjármálageirann á sínum tíma,“ segir Kristrún.

„Þess vegna er það svo alvarlegt að við skulum standa frammi fyrir því að það sé mögulega verið að fara á svig við lög við sölu á þessari stóru og verðmætu eign og að það sé ekki vilji fyrir því hjá ríkisstjórninni að fá allt upp á borðið,“ bætir hún við.

Bendir Kristrún á að þrátt fyrir skýra og góða skýrslu Ríkisendurskoðunar þá standi heimildir stofnunarinnar ekki til þess að málið sé endanlega leitt til lykta. Meira þurfi að koma til, en á Alþingi í dag kröfðust þingmenn stjórnarandstöðunnar að rannsóknarnefnd verði sett á laggirnar vegna sölunnar.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ráðherra ber höfuðábyrgð á sölunni

Að sögn Kristrúnar er skýrslan áfellisdómur yfir fjármála- og efnahagsráðherra.

„Fjármála- og efnahagsráðherra ber höfuðábyrgð á þessu máli. Það er hægt að gera athugasemdir við ýmislegt í framkvæmdinni þar sem Bankasýslan tók þátt í og það er líka verið að vinna að skýrslu á vegum fjármála-og efnahagsráðuneytisins þar sem verið er að fara yfir hegðun söluaðila,“ segir hún.

„En það má ekki gleymast að það varðar ábyrgð ráðherra að tryggja að söluferlið væri í samræmi við þær forsendur og skilyrði sem voru lögð til grundvallar. Honum ber lögum samkvæmt að hafa eftirlit með söluferlinu, en það liggur fyrir samkvæmt þessari úttekt að fjármála- og efnahagsráðherra vissi ekki hvernig verðið var fengið í útboðinu.

Að verðið var ákvarðað meðal annars út frá eftirspurn erlendra aðila sem síðar seldu sig út úr fyrirtækinu stuttu seinna. Þá er með öllu óljóst og órökstutt matið á hvernig var í rauninni valið úr tilboðum, því það var mikil eftirspurn og það liggur fyrir að jafnræði var ekki gætt. Þetta eru grundvallaratriði sem eru mjög alvarleg að okkar mati.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert