Bilanir hafi ekki leitt til verulegs tekjutaps

Bilanir hafa komið upp í lykilbúnaði greiðslukerfisins í Strætó.
Bilanir hafa komið upp í lykilbúnaði greiðslukerfisins í Strætó. mbl.is/Hari

Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir ekki rétt að skannar Klapp-apps sem notaðir eru í strætisvögnum, séu ónothæfir. Bilanir hafi vissulega komið upp en þrátt fyrir það séu að meðaltali um 700 þúsund skannanir á mánuði og 30 þúsund á dag. 

Þá telur hann bilanir í kerfinu ekki hafa leitt til verulegs tekjutaps fyrir Strætó þar sem flestir viðskiptavinir séu með tímabilskort.

Ákvörðun hefur þó verið tekin af birginum um að skönnum í Strætó verði skipt út og munu viðskiptavinir geta greitt með snertilausum greiðslum á næstu mánuðum. Þetta verður gert Strætó að kostnaðarlausu en þangað til að breytingin verður innleidd verða skannar Klapp-appsins enn í notkun.

Ekki rétt að skannarnir séu ónothæfir

Í aðsendri grein sem Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, skrifaði í Morgunblaðið sem kom út í morgun kemur fram að lykilbúnaður greiðslukerfis Strætós sé ónothæfur til síns brúks og að alvarleg mistök hafi verið gerð með kaupum og innleiðingu greiðslukerfisins.

Jóhannes kveðst ósammála þessum fullyrðingum.

 „Það getur verið bilanagjarnt en ónothæft er hlutur sem þú getur ekki notað og ef við erum að sjá 30 þúsund manns sem nota þetta á hverjum degi þá get ég ekki alveg sagt að þetta sé ónothæft,“ segir Jóhannes.

„Það hafa komið upp endurræsingar ófyrirséðar á skönnunum og þá getur fólk ekki notað þetta en oftast erum við ekki að tapa tekjum á þessu af því að stór hluti af notendum okkar eru með tímabilskort, það eina sem við missum þá út er pínulítil tölfræði en tekjutapið er óverulegt. En þegar við verðum komin með snertilausar greiðslur þá getur þetta skipt máli varðandi tekjur ef skannar virka ekki.“

Notkunin að nálgast árið 2019

Aðspurður segir Jóhannes mögulegt að sögur af bilunum í greiðslukerfi Strætó hafi ákveðinn fælingarmátt og að fólk kjósi að nýta sér ekki þjónustu fyrirtækisins vegna þess.

„Það getur vel verið en við erum alla vega að sjá að notkunin er að nálgast 2019 og við erum komin í 90% af 2019 – sem er þokkalega gott í alþjóðlegum samanburði. Vonandi sýnir fólk okkur biðlund því að þetta er nýtt kerfi og þetta er gríðarlega flókið og við erum alveg sannfærð um það að þetta taki tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert