N1 lækkar verð í Norðlingaholti

Með því að lækka verð í Norðlingaholti hefur N1 fært …
Með því að lækka verð í Norðlingaholti hefur N1 fært mörk þess svæðis þar sem eldsneytisfélögin hafa boðið sitt lægsta verð. Ljósmynd/N1

Eldsneytisfyrirtækið N1 lækkaði í morgun verð á eldsneyti á stöð sinni í Norðlingaholti og er það nú á pari við lægsta verð fyrirtækisins. Með þessu hefur fyrirtækið fært mörk þar sem eldsneytisfélögin bjóða sín lægstu verð upp í efri byggðir höfuðborgarsvæðisins í fyrsta skipti.

N1, ásamt öðrum eldsneytisfélögum, hefur síðustu ár boðið lægsta eldsneytisverð sitt á höfuðborgarsvæðinu, sem nú er í kringum 306-307 krónur á lítra, á stöðvum sem eru í nálægð við Reykjanesbraut, frá Hafnarfirði og út að Sæbraut. Hefur svæðið stækkað örlítið með stöðvum á öðrum stöðum í Hafnarfirði og Hamraborg og síðast á Bústaðavegi. Þá hafa félögin einnig boðið þetta lægsta verð sitt á stöðvum á Akureyri.

N1 tilkynnti nú í dag að það hefði ákveðið að bjóða upp á ódýrara eldsneyti á stöð sinni í Norðlingaholti, en með því verður stöðin ein af fimm stöðvum hjá fyrirtækinu sem bjóða það verð. Aðrar stöðvar eru á Reykjavíkurvegi og Norðurhellu í Hafnarfirði, við Lindir í Kópavogi og við Tryggvabraut á Akureyri. Segir í tilkynningunni að stöðin í Norðlingaholti henti sérstaklega vel fyrir þetta fyrirkomulag og er vísað til þess að hún þjóni bæði íbúum svæðisins sem og er hún í alfaraleið fyrir fólk sem er á leið af höfuðborgarsvæðinu á Suðurland.

 „Við hjá N1 höfum fundið vel fyrir eftirspurn viðskiptavina eftir fleiri stöðvum sem bjóða ódýrara eldsneyti. Þeim hefur alls staðar verið vel tekið og því afar ánægjulegt að geta svarað kallinu með þessari breytingu í Norðlingaholti. Við ætlum að halda áfram að auðvelda viðskiptavinum okkar eldsneytiskaupin og ódýrara eldsneyti í Norðlingaholti er liður í þeirri vegferð,“ er haft eftir Hinriki Erni Bjarnasyni, framkvæmdastjóra N1, í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert