„Þær standa tómhentar andspænis byssukúlum“

Einstaklingar frá Afganistan og Íran gengu framarlega í göngunni.
Einstaklingar frá Afganistan og Íran gengu framarlega í göngunni. mbl.is/Arnþór Birkisson

Fjölmenn Ljósaganga UN Women á Íslandi fór fram í gær eftir tveggja ára hlé sökum samkomutakmarkana heimsfaraldurs Covid-19.

Viðburðurinn markaði 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi sem UN Women og félagasamtök hér á landi eru í forsvari fyrir. Af því tilefni hefur Harpa verið lýst í appelsínugulum lit.

Harpa lýst með appelsínugulum ljósum.
Harpa lýst með appelsínugulum ljósum. mbl.isArnþór Birkisson

Yf­ir­skrift Ljósa­göng­unn­ar í ár var „Konur, líf, frelsi,“ sem er jafnframt slagorð mótmælanna sem hafa staðið yfir í Íran í meira en tvo mánuði. Zahra Mesbah frá Afganistan og Zoreh Aria frá Íran leiddu gönguna ásamt Stellu Samúelsdóttur, framkvæmdastýru UN Women á Íslandi en auk þeirra gengu einstaklingar frá Afganistan og Íran fremst í göngunni. Þá mættu Eliza Reid forsetafrú Íslands og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra einnig.

Gangan markar upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi sem …
Gangan markar upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi sem UN Women á Íslandi ásamt fjölda annarra öflugra félagasamtaka hér á landi eru í forsvari fyrir. mbl.is/Arnþór Birkisson

Zahra Mesbah, sem er afgönsk að uppruna en fædd í Íran, lagði áherslu á það sem sameinar okkur en sundrar ekki í ræðu sinni. Þjóðerni, trú, eða aðrir þættir eigi ekki að skipta máli. „Það eina sem máli skiptir er að ég er manneskja, og allar manneskjur eiga skilið frelsi og að lifa með reisn,“ sagði Zahra meðal annars.  

Þá brýndi Zoreh Aria fyrir viðstöddum nauðsyn þess að sýna írönskum konum stuðning í baráttu sinni fyrir frelsi.

„Stúlkur hætta lífi sínu til að mótmæla á götum úti á hverjum degi. Þær standa tómhentar andspænis byssukúlum og táragasi. Í þeirra huga er þetta einstefna og engin leið til baka, því það er ekkert til að snúa aftur til. Þær berjast fyrir frelsi og reisn. Við biðjum fólk um að standa með friði, frelsi og írönsku þjóðinni og að það biðji stjórnvöld um að grípa til aðgerða,“ sagði hún. 

Gangan hófst klukkan 17 á Arnarhóli.
Gangan hófst klukkan 17 á Arnarhóli. Arnþór Birkisson
mbl.is