Mesta hækkun til löggæslu í áraraðir

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórnin hyggst auka fjárframlög til löggæslu um 2,5 milljarða króna frá því sem upphaflega var miðað við í fjárlagafrumvarpi, sem er meira en sést hefur um árabil. Þar munar mest um aukin framlög til lögreglu, sem nema munu 1,4 milljörðum króna, fallist Alþingi á tillögurnar.

„Við erum hér vonandi að fá aukin framlög, sem við höfum ekki séð í fjöldamörg ár,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is. „Það er mikilvægt að fólk sjái og viti að við látum ekki sitja við orðið tóm hvað varðar löggæslu og öryggi borgaranna,· segir dómsmálaráðherra.

„Þetta gefur okkur tækifæri til þess að efla löggæsluna almennt, fara í sérstakt átak gegn skipulegri brotastarfsemi, erum að bæta fangelsins og aukin framlög til Landhelgisgæslunnar, sem þýðir að við getum staðið undir kröfum um viðbragð og björgunargetu Gæslunnar.“

Fjárlaganefnd hafa borist breytingatillögur við fjárlagafrumvarpið frá fjármálaráðherra, þar sem lagðar eru til verulega auknar fjárheimildir, eða um 2,5 milljarðar, til verkefna á vegum dómsmálaráðuneytisins. Auk lögreglu er þar horft til fangelsismála, landhelgisgæslu og móttöku hælisleitenda.

Almenn löggæsla efld

„Ég er mjög ánægður með að þessar tillögur séu komnar fram,“ segir Jón. „Það er afrakstur úttekta, sem við höfum staðið í til þess að rökstyðja fjárþörf þessara málaflokka og snýr einkum að eflingu almennrar löggæslu í landinu, m.a. hjá þessum minni embættum úti á landi.“

Ítarleg greining var unnin innan dómsmálaráðuneytisins á aukinni fjárþörf í málaflokkum sem helst tengjast almanna- og réttaröryggi. Sú greining var unnin í samvinnu við viðeigandi stofnanir og hefur nú verið lögð til grundvallar í tillögum fjármála- og efnahagsráðuneytis til fjárlaganefndar.

Herör gegn skipulögðum glæpum

Í tillögunum er lögð til veruleg aukning á fjárheimildum til lögreglu, annars vegar til þess að styrkja almenna löggæslu og hins vegar til þess að efla viðbragð lögreglu og ákæruvalds þegar kemur að aðgerðum gegn skipulagðri brotastarfsemi. Fjárveitingar verða samtals auknar um 1.400 milljónir, sem varið verður til eflingar lögreglu og til þess að efla viðbragð lögreglu gegn skipulagðri brotastarfsemi.

„Við munum ná að fjölga mjög teymum, sem eru í rannsóknum og greiningum á skipulagðri brotastarfsemi, auk almennrar löggæslu,“ segir Jón og staðfestir að það sé í samræmi við þær áherslur sem hann boðaði nýverið um að skera upp herör gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Eins er miðað við að styrkja fámennari embætti á landsbyggðinni töluvert.

„Þessi minni embætti hafa orðið of veikburða til þess að takast á við alvarlega atburði, hvort sem eru einhver voðaverk, stórslys eða náttúruhamfarir,“ segir Jón og bætir við að framundan sé einnig frekari samvinna lögregluembætta auk þeirrar eflingar, sem þessi fjárframlög feli í sér.

Gæslan og fangelsin styrkt

Þá er gert ráð fyrir aukningu fjárveitinga til Landhelgisgæslunnar sem nemur um 600 milljónum og munar þar mestu um 370 milljóna framlag til að mæta auknum eldsneytiskostnaði.

Lagt er til að að um 250 milljónum króna verði veitt til fangelsismála í því skyni að efla rekstur fangelsanna. Lögð er áhersla á að auka öryggi og bæta aðstöðu í fangelsunum.

„Við munum ná að fjölga fangavörðum og getum farið í þær skipulagsbreytingar og umbætur, sem við höfum stefnt að í fangelsismálum. Með þessu er líka horft til fangavarðanna, menntunar þeirra og þjálfunar, auk nauðsynlegs varnarbúnaðar,“ segir Jón og segir fjölgun fangavarða skipta miklu til þess að lengja heimsóknartíma barna í fangelsi og jafnframt nýta fangelsin betur með það að markmiði að refsingar fyrnist ekki.

Loks er lagt til að fjárframlög til málefna flóttamanna hjá Útlendingastofnun verði aukin um 150 milljónir enda hefur fjöldi umsókna um vernd hér á landi nær fimmfaldast frá fyrra ári.

mbl.is