Á „barnum“ í Sviss

Hafi hið blómgaða dalanna skaut úr Íslandi Jónasar einhvern tímann …
Hafi hið blómgaða dalanna skaut úr Íslandi Jónasar einhvern tímann komið upp í hugann er það við hina ægifögru svissnesku náttúrusýn sem hér blasir við. Ljósmynd/Aðsend

„Já já, ég er bara á barnum,“ segir Rannveig Borg Sigurðardóttir, lögfræðingur og rithöfundur, eða rithöfundur og lögfræðingur, allt eftir því hvert aðflugshornið er. Engin merki heyrast þó um að Rannveig sitji á bar meðan þetta viðtal fer fram, hins vegar býr hún í svissneska bænum Baar sem býður upp á orðaleik eins og fjöldi annarra örnefna.

„Ég hef verið að vinna erlendis meira og minna öll mín fullorðinsár,“ segir Rannveig sem nýverið sendi frá sér skáldsöguna Tálsýn, þar sem Sviss er einmitt sögusviðið að stórum hluta, en í fyrra kom út eftir hana Fíkn þar sem, eins og Sögur útgáfa skrifaði í kynningartexta, lygar, villt kynlíf og víma eru aldrei langt undan.

Tálsýn blandar sér í fjölbreytt jólabókaflóð ársins 2022 og kveðst …
Tálsýn blandar sér í fjölbreytt jólabókaflóð ársins 2022 og kveðst höfundurinn þegar tekinn að leggja drög að sinni þriðju skáldsögu. Ljósmynd/Aðsend

Auk þess að hafa verið að vinna erlendis stóran hluta ævinnar stundaði Rannveig, sem þó er úr Hafnarfirði, einnig nám sitt erlendis. „Ég lærði lögfræði í París og byrjaði að vinna þar upphaflega,“ segir Rannveig frá en játar að hún hafi þó flutt tvisvar til Íslands þar sem hún starfaði hjá Actavis í seinna skiptið, en þangað flutti hún reyndar frá London.

Hluti af pakkanum

„Svo líða þrjú eða þrjú og hálft ár og þá flytja þeir höfuðstöðvarnar til Sviss og ég var nú bara hluti af pakkanum,“ segir rithöfundurinn og bætir því við að margir hafi líklega rekið upp stór augu yfir að hún hafi viljað fara á þessum tíma. „Já já, þegar verið var að ræða við starfsfólkið á Íslandi hvort það vildi flytja sig til Sviss var ég með stóra kúlu á maganum,“ útskýrir Rannveig sem engu að síður lét hvergi bilbug á sér finna.

„Mig langaði að fara með, mig langaði að taka þátt í þessu ævintýri og ég fékk að fara aðeins seinna en aðrir. Flestir fóru í lok árs 2010 en ég fór út í júlí 2011,“ segir Rannveig af tilveru sinni í Sviss þar sem hún er komin býsna vel inn í samfélagið á löngum tíma svo sem vel má sjá af efnistökum í Tálsýn.

Eftir áratug í París þóttist Rannveig þess fullviss að hún …
Eftir áratug í París þóttist Rannveig þess fullviss að hún yndi sér hvergi nema í stórborg. Nú býr hún hins vegar í svissneska smábænum Baar og þykir vistin góð. Ljósmynd/Aðsend

Land súkkulaðis, osta og rándýrra úra hlýtur þó að hafa verið viss viðbrigði, jafnvel svo veraldarvanri manneskju. Eða hvað?

„Jú,“ segir Rannveig hugsi, „en það var bara svo gott að hafa Lúxemborg og Reykjavík líka. Ég flutti frá París til Lúxemborgar á sínum tíma og það var algjört sjokk, en það var fínt að fara gegnum Reykjavík og svo hingað, annars hefði ég líklega fengið annað sjokk,“ segir Rannveig og brosið heyrist gegnum símtal á Messenger.

Má oft finna fjósalykt

Henni finnst heillandi hve lunknir Svisslendingar eru við að blanda saman sveitum og borgarmenningu. „Beint fyrir framan höfuðstöðvar UBS [bankans] rétt fyrir utan Zürich er búgarður þannig að það eru beljur á túninu fyrir utan UBS,“ segir lögfræðingurinn frá.

Hún kveður Sviss vissulega hafa verið viðbrigði á sínum tíma en engu að síður snúist stóra spurningin þó um tímabil í lífinu. Eftir tíu ára búsetu í París hafi hún þóst þess alviss að hún gæti hvergi búið nema í stórborg og við flutning til Íslands hafi miðbærinn í Reykjavík einn komið til greina.

Einhver sagði að öllum rithöfundum væri nauðsyn að ganga með …
Einhver sagði að öllum rithöfundum væri nauðsyn að ganga með hatt til að halda hugmyndunum á sínum stað í kollinum. Ljósmynd/Ásta Kristjáns

„Og nú bý ég í litlum bæ þar sem oft má finna fjósalykt og mér finnst það bara fínt. Baar er í sýslu sem heitir Zug sem er mjög stór og helsti bærinn þar heitir líka Zug, hann er bara hérna handan við hornið, ég labba bara þangað yfir,“ segir Rannveig af nærumhverfi sínu.

Hún segir svissneska þjóð hafa komið sér nokkuð á óvart eftir að hafa verið orðin hagvön í Lúxemborg. „Ég hélt að Sviss væri eins og Lúxemborg þar sem eru nokkur opinber tungumál og allir tala þessi tungumál. Þannig er það alls ekki,“ segir Rannveig frá.

Í þýska hlutanum, þar sem hún er, tali fólk ekki frönsku. Hún sé þó kennd í skólum en sú kennsla mæti töluverðri andstöðu og sé það skoðun margra að enska ætti að vera eina erlenda tungumálið. Gagnkvæmt ástand ríki svo í franska hlutanum þar sem fólk tali enga þýsku. Ítalski hluti Sviss sé svo alveg sér á báti en auk hans skarti landið örsmáum rómönskum hluta. Nóg til að gera flesta sjóveika eða hvað?

„Leyfi þeim að blaðra við mig“

„Að keyra hér um innanlands er bara eins og að keyra frá einu landi til annars,“ segir Rannveig, „franski hlutinn er mjög franskur og að sama skapi er þýski hlutinn mjög þýskur og svo líður manni alveg eins og maður sé kominn til Ítalíu í ítalska hlutanum. Þetta eru mjög ólík svæði.“

Með syninum Axel Elís Borgarsyni, sem kennir sig við millinafn …
Með syninum Axel Elís Borgarsyni, sem kennir sig við millinafn móður sinnar, í Maasai Mara National Reserve í Kenía. Flóðhestar flatmaga í baksýn. Ljósmynd/Aðsend

Tungumálið í landshluta Rannveigar er svissþýska, kannski á pari við finnlandssænskuna í Finnlandi sem innfæddir Svíar gera jafnan stólpagrín að. „Svissþýska er þýsk mállýska en samt er hún í raun annað tungumál. Þó er hún ekki opinbert tungumál því hún er ekki skrifuð og svo ólík venjulegri háþýsku er hún að maður skilur fyrst ekki neitt í svissþýskunni, maður þarf að venjast henni í byrjun,“ segir Rannveig af þessum skemmtilega málskógi sem Sviss er.

Sjálf segist Rannveig tala ensku í vinnunni, enda vinnutungumálið enska. Úti í búð og í bankanum og almennum útréttingum tali hún hins vegar þýsku, venjulega þýsku, „og svona smá svissþýsku, svo leyfi ég þeim að blaðra við mig á svissþýsku og þykist skilja það,“ segir Rannveig og hlær. „Svo er barnið mitt í frönskum skóla svo í öllum tengslum við það tala ég frönsku. Við erum því að nota nokkuð mörg tungumál svona dags daglega,“ útskýrir hún.

Rannveig er lögfræðingur hjá Adecco Group AG, alþjóðlegu þjónustufyrirtæki með starfsemi í tugum landa, og kannast blaðamaður þegar við gríðarstórar starfsmannaleigur Adecco í Noregi. Starfsemi fyrirtækisins er þó að sögn Rannveigar orðin svo víðfeðm að hún nær nánast til flestra kima evrópsks atvinnulífs þar með talið ráðgjafar á sviði mannauðs, útvistunarþjónustu, ráðningarþjónustu og hátækniráðgjafar.

Framangreint hefur allt verið ákaflega fróðlegt, ekki síst beljur UBS-bankans, fjósalyktin og tungumálasúpan. Viðtalið átti hins vegar upphaflega að snúast um glænýjan rithöfundarferil Rannveigar svo við vendum kvæðinu góða því í kross.

Ákveðið frelsi að skrifa erlendis

„Ég er nú enn þá að venjast því að vera kölluð rithöfundur,“ segir Rannveig í léttum dúr og við rifjum upp gengi Fíknar í jólabókaflóði síðasta árs. „Hún fór langt langt fram úr öllum mínum björtustu vonum. Þetta var náttúrulega ævintýri, maður var bara að prófa en svo gekk þetta svona líka vel,“ rifjar Rannveig upp en Fíkn vermdi toppsæti vinsældalista hljóðbókaveitunnar Storytel lengi vel.

„Kannski þorði ég að ganga lengra vegna þess að ég …
„Kannski þorði ég að ganga lengra vegna þess að ég er svolítið í burtu,“ segir Rannveig og kveður visst frelsi fylgja því að skrifa um íslenskan raunveruleika búandi erlendis. Ljósmynd/Aðsend

Enn fremur kveðst hún hafa fengið gnótt góðra athugasemda, fólk hafi komið til hennar og rætt bókina en það sem fyrst og fremst hafi yljað Rannveigu um hjartarætur er að Fíkn náði til þeirra sem hún vildi ná til. „Það eru þeir sem þekkja til fíknar og aðstandendur þeirra,“ segir höfundurinn sem skrifaði Fíkn í Sviss en byggði hana þó að hluta til á efni sem hún hafði skrifað áður og annars staðar.

Hvernig upplifði hún þá að skrifa um íslenskan raunveruleika búsett hinum megin í álfunni?

„Það var ákveðið frelsi sem því fylgdi,“ svarar Rannveig eftir stutta umhugsun. „Kannski þorði ég að ganga lengra vegna þess að ég er svolítið í burtu. Bókin er djörf að mörgu leyti og kannski hefði maður ekki þorað að taka þessa áhættu á Íslandi, að skrifa bók um svona erfitt viðfangsefni, fíkn og meðvirkni, bók sem er mjög ögrandi á köflum. Mér finnst bara að það hafi gefið mér smá hugrekki að skrifa hana í Sviss,“ er niðurstaða Rannveigar.

Hún ferðaðist til Íslands í fyrra og kynnti bókina í tvær vikur, veitti viðtöl, las upp og sinnti lesendum sínum eins og flestra íslenskra rithöfunda er siður. „Þá hjálpaði kannski líka að vera að vinna við eitthvað allt annað í útlöndum og koma svo til Íslands og fara í viðtöl sem kona sem tekur upp á að skrifa djarfar bækur um fíkn, þetta er svolítið óviðeigandi, engin rómantík í þessu,“ segir Rannveig og hlær dátt.

Klukkustundirnar í sólarhringnum ótrúlega margar

Hún játar þó að henni hafi þótt hálfsúrt í broti að dvelja ekki á Íslandi um jólin, verandi með sína fyrstu bók á markaðnum, en ekki er á allt kosið og hún fylgdist með lokasprettinum fyrir jól frá Sviss og varð ekki fyrir vonbrigðum.

Lögun hins heimskunna Toblerone-súkkulaðis þeirra Svisslendinga er augljóslega sótt í …
Lögun hins heimskunna Toblerone-súkkulaðis þeirra Svisslendinga er augljóslega sótt í túnið heima. Ljósmynd/Aðsend

Hvað með Tálsýn sem nú hefur litið dagsins ljós, var Rannveig strax ákveðin í að senda frá sér aðra bók?

„Já, ég var það,“ svarar Rannveig, engin stutt umhugsun í þetta skiptið. „Mér fannst þetta svo skemmtilegt að mér fannst alveg augljóst að ég myndi halda áfram en ég bjóst aldrei við að það gengi svona hratt,“ heldur hún áfram.

Vinnan við bók númer tvö hófst með því að Rannveig punktaði hjá sér hugmyndir sem hún fékk og virtust nothæfar í efnivið. „Svo byrjaði ég bara að skrifa og það lengdist og lengdist og ég fór eiginlega bara á smá flug þegar ég hafði tíma,“ segir hún frá og blaðamaður öfundar hana í laumi af svo öflugri flugumferðarstjórn.

Rannveig segist skrifa þegar hún kemur því við og segir klukkustundirnar í sólarhringnum ótrúlega margar sé tíminn nýttur vel. „Ég horfi mjög lítið á sjónvarp og vakna snemma. Ég er kannski búin að skrifa í tvo tíma þegar ég byrja að vinna klukkan níu. Ég tek svona tarnir þar sem ég verð rosalega dugleg og mér finnst passa mjög vel að vera í þessu með fullri vinnu því það sem gefur mér kraft og orku virkar líka á öðrum vígstöðvum í mínu lífi,“ segir rithöfundurinn og lögfræðingurinn, þegar hér er komið sögu þykir blaðamanni sú röð titlanna orðin eðlilegri.

Hugmyndir kvikna í jógatímum

Hún tekur dæmi af Tálsýn sem hún byrjaði að punkta hjá sér strax í desember í fyrra og fullbúið handrit lá fyrir í sumar. „En langmesta vinnan var í mars og apríl, þá fór ég alveg á flug. Ég held að fólk sjái rithöfundarstarfið stundum fyrir sér öðruvísi en það er, sjái fyrir sér höfunda sem sitja og skrifa allan daginn í húsi við sjóinn og geri ekkert annað,“ segir Rannveig.

Rithöfundar vitja ekki eingöngu væntanlegra lesenda á ferðum sínum. Hér …
Rithöfundar vitja ekki eingöngu væntanlegra lesenda á ferðum sínum. Hér hittist einn ólæs fyrir í Naivasha Kenya. Ljósmynd/Aðsend

Þetta sé mjög langt frá hennar raunveruleika þar sem lífið snúist í raun um að vera að gera eitthvað annað og hliðra svo til og finna tíma fyrir skrif.

Hún segir enga reglu á því hvenær sólarhringsins hún sé mest skapandi á vettvangi textasmíða. „Stundum þegar ég býst ekki við því fæ ég endalausar hugmyndir, til dæmis í miðjum jógatíma, og þá þarf ég að drífa mig að koma þeim niður á blað svo ég gleymi þeim ekki. Ég get verið mjög skapandi þótt ég sé að gera eitthvað allt annað,“ segir hún.

Er Rannveigu auðvelt að búa til trúverðugan söguþráð frá grunni?

„Ég hef náttúrulega ekki mikla reynslu en með þessar bækur fannst mér það tiltölulega auðvelt. Sögurnar komu einhvern veginn til mín, reyndar breyttust þær á leiðinni, maður endurskrifar, breytir og bætir í, en í grunninn kom þetta bara til mín. Ég veit ekkert hvernig það væri ef maður væri búinn að skrifa fimmtán bækur,“ játar höfundurinn kankvíslega en er þó að eigin sögn farin að móta hugmyndir sínar um þriðju bókina nú þegar.

Hin árlega gönguskíðaferð

Ein klisjuspurning er hverju viðtali holl. Telur Rannveig að hún hafi þroskast sem höfundur á milli þessara tveggja verka sinna?

„Mér finnst það, mér fannst til dæmis mun auðveldara að skrifa þegar ég skrifaði Tálsýn en Fíkn. Það var eins og ég vissi betur hvernig væri best að koma hlutunum frá mér og hvernig ég vildi hafa þetta. En svo veit ég ekkert hvort það skín í gegn, það var bara mín tilfinning á meðan ég var að skrifa,“ svarar Rannveig og þar með líður að lokum með spurningu um næstu vikur og jólahátíðina.

Andi liðinna jóla. Þá sendi Rannveig frumraunina Fíkn frá sér …
Andi liðinna jóla. Þá sendi Rannveig frumraunina Fíkn frá sér og vakti þegar athygli íslenskra lesenda auk þess að ná til þeirra lesenda sem höfundurinn helst óskaði, þeirra sem fíkn þekkja á eigin skinni og aðstandenda þeirra. Ljósmynd/Aðsend

„Mér finnst gott að vera komin hingað heim til Sviss, ég er búin að vera mikið á fartinni undanfarið og það er bara mikið að gera í vinnunni, einhver vinnuferðalög eru fram undan en einnig mín árlega gönguskíðaferð,“ segir Rannveig sem ekki hefur fyllilega gert upp við sig hvað hún hyggist gera um jólin, hugsanlega líti hún til Íslands en einnig freisti skíðaiðkun í hinni annáluðu skíðaparadís sem Sviss óneitanlega er.

Hvort er þá meira „heima“ nú orðið, Ísland eða Sviss?

„Bæði,“ svarar Rannveig, þó eftir nokkra umþóttun, „mér finnst æðislegt að vera á Íslandi á sumrin, það var kannski ekkert sérstakt núna í nóvember. Hér sagði mér einhver kona í partýi um daginn að hún væri að hugsa um að fara til Íslands í tvær vikur í nóvember og ég bara gat ekki sagt henni að það væri góð hugmynd,“ segir Rannveig og hlær dátt og þar með leggjum við talið, tveir Íslendingar í Noregi og Sviss, vantaði bara Liechtenstein til að ná öllum EFTA-ríkjunum með í fróðlegt spjall um tungumál, bókmenntir og fjósalykt.

Rannveig á erfitt með að gera upp á milli Íslands …
Rannveig á erfitt með að gera upp á milli Íslands og Sviss sem „heima“ og verður að nefna bæði löndin í því samhengi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert