Niðurfelling álags hafi falið í sér sýknu

Landsréttur leit til ákvæðis mannréttindasáttmála Evrópu.
Landsréttur leit til ákvæðis mannréttindasáttmála Evrópu. mbl.is/Hanna

Landsréttur hefur vísað frá héraðsdómi tilteknum ákæruliðum yfir þremur karlmönnum, sem voru meðal annars ákærðir fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og peningaþvætti, á grundvelli ákvæðis mannréttindasáttmála Evrópu.

Voru þeir, ásamt tilteknum félögum þeim tengdum, ákærðir fyrir að hafa ýmist staðið skil á efnislega röngum skattframtölum, eigi staðið skil á skattframtölum eða þvættað ólögmætan ávinning af skattalagabrotum. Með dómi héraðsdóms voru tveir þeirra sakfelldir en sá þriðji sýknaður að hluta.

Fyrir Landsrétti kröfðust þeir þess allir að tilteknum ákæruliðum á hendur þeim yrði vísað frá héraðsdómi. Í úrskurði Landsréttar var rakið að vissir liðir ákæru tækju til sömu annmarka á skattskilum mannanna og álagsbeiting ríkisskattstjóra laut að.

Yfirskattanefnd fellt niður álag ríkisskattstjóra

Álag ríkisskattstjóra hafði verið fellt niður með úrskurði yfirskattanefndar og lagði Landsréttur til grundvallar að niðurfelling álagsins hefði falið í sér sýknu í skilningi 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við MSE.

Samkvæmt ákvæðinu skal enginn sæta lögsókn eða refsingu að nýju í sakamáli innan lögsögu sama ríkis fyrir brot sem hann hefur þegar verið sýknaður af eða sakfelldur fyrir með lokadómi samkvæmt lögum og sakamálaréttarfari viðkomandi ríkis.

Með úrskurðum yfirskattanefndar hafi verið tekin afstaða til refsiábyrgðar mannanna og þar með fengist endanleg niðurstaða um efnishlið málsins á stjórnsýslustigi.

Niðurfelling nefndarinnar á álagi ríkisskattstjóra hefði því falið í sér sýknu í skilningi ákvæðis MSE og var þeim ákæruliðum sem ákvæðið tók til vísað frá héraðsdómi. Þá var tilteknum ákæruliðum sem sneru að ætluðu peningaþvætti einnig vísað frá.

mbl.is