„Eins og að fara með rangt barn heim af róló“

Guðmundur sagði Bankasýsluna ekki hafa haft heildarsýn yfir eftirspurn eftir …
Guðmundur sagði Bankasýsluna ekki hafa haft heildarsýn yfir eftirspurn eftir hlut ríkisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi var mjög harðorður í garð Bankasýslu ríkisins á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun, þar sem hann ræddi um skýrslu ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Sakaði hann Lárus Blöndal, stjórnarformann Bankasýslunnar, meðal annars um að hafa talað gegn betri vitund þegar Bankasýslan kom fyrir nefndina á föstudag og ræddi svokallað Excel-klúður við framkvæmd útboðsins.

Guðmundur sagði málið ekki ganga út á það að Ríkisendurskoðun hefði hengt sig í vitlaust skjal, líkt og haldið hefði verið fram, skýrslan hefði verið unnin útfrá öllum gögnum sem lágu fyrir. Meðal annars tilboðabókinni eins og hún þróaðist að kvöldi útboðsdags.

Bankasýslan hefði sjálf sent umrætt skjal til Ríkisendurskoðunar og rökstutt sínar ákvarðanir út frá skjalinu með villunum í.

Málflutningurinn ekki við hæfi 

Sagði hann það hafið yfir allan vafa að Bankasýslan hefði ekki haft yfirsýn og upplýsingar yfir heildareftirspurn samkvæmt tilboðabókinni þegar ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð var tekin. Fjármálaráðherra hafi því verið sendar rangar upplýsingar um eftirspurn. Bankasýslan hafi svo haldið áfram að styðjast við þær upplýsingar við greiningu á tilboðabókinni sem send var Ríkisendurskoðun.

„Þetta er eins og að fara með rangt barn heim af róló. Og halda svo áfram að kynna það fyrir fjölskyldu og vinum sem sitt eigið. Þetta er alvarlegt mál. Ég veit ekki hvað vakir fyrir Bankasýslunni þegar hún gerir þetta en ég segi bara hér, sem trúnaðarmaður Alþingis og ríkisendurskoðandi, að málflutningur Bankasýslunnar um þetta atriði er bara alls ekki við hæfi og eingöngu til þess fallin að skapa upplýsingaóreiðu og afvegaleiða umræðu þings og almennings um hvað það var sem þetta mál snérist um,“ sagði Guðmundur og hvatti fólk til að lesa skýrsluna aftur, væri þetta ekki kýrskýrt.

Samráð við Bankasýslu fordæmalaust

Það skýrði meðal annars hve dróst að skila skýrslunni, hve langan tíma hefði tekið að vinna úr villum Bankasýslunnar og finna út hvað var satt og rétt.

„Það er sem sagt enginn misskilningur hjá Ríkisendurskoðun. Skýrslan er ekki unnin út frá ófullnægjandi gögnum og upplýsingum. Þvert á móti er hún unnin út frá öllum þeim gögnum og upplýsingum sem liggja fyrir og hægt er að sannreyna.“

Fullyrðingar Bankasýslunnar væru eftiráskýringar og yfirklór.

Þá sagði Guðmundur að samráð við Bankasýsluna í umsagnarferlinu hefði verið með ólíkindum og algjörlega fordæmalaust.

Bankasýslan hefði verið boðuð á fund og þar hefðu fulltrúar stofnunarinnar lagt fyrir Ríkisendurskoðun hvernig hefði átt að afmarka vinnuna og hvernig vinna hefði átt skýrsluna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert