„Farsælasta hlutafjárútboð Íslandssögunnar“

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, á fundi stjórnskipunar- og …
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun. mbl.is/Hákon

„Sala ríkisins á hlut í Íslandsbanka í mars er að mínum dómi farsælasta hlutafjárútboð Íslandssögunnar. Við getum aldrei litið fram hjá því þegar við ákveðum næstu sölu á eignarhlut ríkisins,“ sagði Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun.

Jón sagði að hann teldi allt hafa tekist vel í útboðinu.

„Ég lít afskaplega stoltum augum á fjárhagslega niðurstöðu útboðsins og allir ráðherra sem hafa komið fyrir þessa nefnd og ríkisendurskoðandi virðast taka undir það.“

Jón kom fram fyrir nefndina ásamt Lárusi L. Blöndal, stjórnarformanni Bankasýslunnar, og lögmönnum Logos, Óttari Pálssyni og Maren Albertsdóttur. 

Lárus tók undir orð Jóns en benti þó á að það hefði þurft að kynna útboðið miklu betur fyrir almenningi.

„Þá hefði hann [almenningur] ekki verið svona móttækilegur fyrir þessari gagnrýni, sem mér finnst ekki byggja á miklum rökum. Ég vil bara segja það að það eru stærstu mistökin í ferlinu, það er að sjá í gegnum það að við vorum ekki að selja þessu fólki en þetta er fólkið sem hafði hagsmunina,“ sagði hann.

Gest­ir fund­ar­ stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar voru Mar­en Al­berts­dótt­ir, lögmaður hjá …
Gest­ir fund­ar­ stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar voru Mar­en Al­berts­dótt­ir, lögmaður hjá Logos, Jón Gunn­ar Jóns­son, for­stjóri Banka­sýslu rík­is­ins, Lár­us L. Blön­dal, stjórn­ar­formaður Banka­sýslu rík­is­ins og Óttar Páls­son, lögmaður hjá Logos. mbl.is/Hákon

Fengu gott fólk til aðstoðar

Fulltrúar Bankasýslunnar hafa áður komið á fund nefndarinnar en Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður nefndarinnar, hóf mál sitt á segja að þeim fundi gafst ekki tími til að svara öllum spurningum sem nefndarmenn höfðu.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði af hverju Bankasýslan tók með sér tvo lögfræðinga á fundinn.

Lárus sagði að Óttar hafi verið lögmaður Bankasýslunnar í útboðinu og Maren hafi mikla reynslu af úttektum líkt og skýrslu ríkisendurskoðanda.

„Við töldum bara eins – og alltaf – að reyna að fá gott fólk okkur til aðstoðar. Það er skýringin,“ sagði Lárus.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Hákon

Miklu meira gagnsæi en annars staðar

Jón varði þá ákvörðun að nota tilboðsfyrirkomulagið sem var valið, og benti á að til dæmis ríkissjóðir Bretlands, Hollands, Spánar og Belgíu hafa notast við fyrirkomulagið.

„Ef við gefum dæmi um það gagnsæi sem við höfðum í ferlinu og lítum á samanburð við önnur erlend ríki og ríkissjóði, þá höfum við miklu miklu meira gagnsæi. Bæði Bankasýsla ríkisins sem og fjármála- og efnahagsráðherra,“ sagði Jón og tók samt fram að það hefði mátt standa betur að kynningu til almennings varðandi fyrirkomulagið.

Þórhildur spurði þá hvernig það samræmdist kröfunni um gagnsæi að neita að birta lista um kaupendur.

„Við bentum á það að við töldum það brjóta í bága við þagnarskylduákvæði laga um fjármálafyrirtæki,“ svaraði Jón og Lárus bætti við að Bankasýslan hafi ekki fundið nein dæmi þess að það hafi verið gert í Evrópu.

„Bankaleyndin er algjör meginregla í svona útboðum, allavega í Evrópu, og sennilega út um allan heim,“ sagði Lárus og bætti við að Bankasýslan hafi fengið álit frá tveimur aðilum sem töldu óráðlegt að birta listann.

Þórhildur Sunna spurði þá hvort það hafi verið aðilar hjá Íslandsbanka sem bentu á að birta ekki listann og svaraði Lárus játandi.

Jón greip hins vegar frammí og sagði að það hafi verið ráðgjafi hjá STJ-ráðgjöfum.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Hákon

Hæfi Bankasýslunnar ekki komið til álita

Þórhildur Sunna spurði þá hvort að Bankasýslan hafi gætt að eigin hæfi í sölunni. 

„Ég held að það hafi aldrei komið til álita,“ svaraði Jón.

Hún spurði þá hvort Bankasýslan hafi ekki skoðað eigið vanhæfi er verið var að úthluta hlutabréfunum til einstakra aðila.

„Mér er ekki kunnugt um það. Það var farið eftir viðurkenndum reglum og viðmiðum,“ svaraði Jón.  

Ber ekki að kanna hver eigi fyrirtækin

Þórhildur benti þá á að fjármálaráðherra hafi áður sagt að Bankasýslan hafi átt að gæta eigin hæfi, en ekki ráðherra. Þá spurði hún hvernig Bankasýslan hafi getað gætt að eigin hæfi ef hún var ekki meðvituð um hver væri á bakvið öll þau fyrirtæki sem keyptu í útboðinu.

Jón sagði að enginn rannsóknarskylda hvíldi á Bankasýslunni um hver væri eigandi fyrirtækis sem komi með löglegum hætti að útboðinu.

Þórhildur spurði þá hvort það væri ekki einmitt þeirra skylda að kanna náin tengsl við eigendur fyrirtækjanna og minntist á fyrirtækið Hafsilfur, sem er í eigu föður Bjarna Benediktssonar.

„Ef þú vissir ekki hver var á bakvið Hafsilfur þegar þú varst að úthluta , hvernig gastu þá kannað hæfið þitt?“ sagði Þórhildur.

„Ég hafði enga vitneskju um að Hafsilfur væri tengt mér og enginn í Bankasýslunni hafði vitneskju um það, enda er umrætt fyrirtæki ekki tengt okkur,“ sagði Jón þá.

„Þér finnst það ekki augljóst?“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði hvort að Bankasýslan bæri ekki ábyrgð að upplýsa ráðherra um kaupendur, sem myndu hafa áhrif á hans hæfi, í ljósi þeirrar stöðu sem hann er í.

Jón ítrekaði að Bankasýslan vissi ekki hverjir eigendur Hafsilfurs eru.

„Það er takmarkað hvað við getum upplýst um stöðu tilboðsbókar og svo framvegis,“ sagði hann.

Spurði Þorbjörg þá hvort Bankasýslan hefði upplýst ráðherra hefði hún haft þessa vitneskju.

Jón sagðist ekki vita svarið við þeirri spurningu. „Þér finnst það ekki augljóst?“ spurði hún. „Ég get ekki svarað því,“ sagði Jón.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK