Kennslustofum lokað vegna myglu

Hofsstaðaskóli í Garðabæ.
Hofsstaðaskóli í Garðabæ. Ljósmynd/Aðsend

Fimm kennslustofum í Hofsstaðaskóla í Garðabæ verður lokað þar sem mygla greindist í þeim í kjölfar sýnatöku í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef skólans sem og í pósti sem skólastjórnendur hafa sent á aðstandendur barna í skólanum. 

Þar segir einnig, að til að gæta að fullu öryggi nemenda og starfsfólks muni verkfræðistofan Mannvit ráðast í ítarlegri mælingar á húsnæði skólans. Gert sé ráð fyrir að niðurstöður þeirra mælingar liggi fyrir fljótlega á nýju ári. Þá verða lofthreinsitæki sett inn í nokkrar stofur. 

Frá þessu var jafnframt greint á fundi með forráðamönnum sem fór fram síðdegis í gær, en þar voru niðurstöður úr sýnatökum í húsnæðinu kynntar. 

Tekið er fram að endurbætur á stofunum hefjist eins fljótt og unnt sé. Þá segir að kennsla muni raskast óverulega vegna þessa og að stefna bæjaryfirvöld að því að leigja færanlegar skólastofur sem verði komið fyrir á skólalóðinni strax eftir jólafrí. 

Virðist sem að rekja megi mygluna til eldri rakaskemmda

Þá segir, að í framhaldi af ábendingum um loftgæði í Hofsstaðaskóla hafi sýni verið tekin í byrjun nóvember og þau send í greiningu. Það leiddi í ljós myglu undir gólfdúk í þremur kennslustofum. Einnig greindist mygla í ryki í tveimur öðrum kennslustofum. Öllum stofunum hefur nú verið lokað. Öll húsgögn og munir sem eru inni í stofunum verða fjarlægð og sótthreinsuð með viðeigandi hætti. 

Þá segir, að svo virðist sem rekja megi mygluna til eldri rakaskemmda í skólanum sem búið var að lagfæra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert