Öryggi íbúanna er ógnað

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar.
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ástandið er viðsjárvert og öryggi fólks er ógnað,“ segir Kristinn Jónasson bæjarstjóri í Snæfellsbæ. Það sem af er hausti hafa stundum liðið vikur án þess að læknir sé starfandi í bæjarfélaginu. Íbúar Snæfellsbæjar hafa áhyggjur af þessu. Komi upp slys eða veikindi hefur hent að leita þurfi eftir læknishjáp í Grundarfjörð eða Stykkishólm, en á síðarnefnda staðinn úr Ólafsvík eru um 60 kílómetrar.

„Ég veit líka þess dæmi að fólk héðan úr Snæfellsbæ hafi ekið alla leið til Reykjavíkur, um 200 kílómetra, þegar og ef enga læknishjálp er að fá hér í bæ. Þetta gengur ekki upp. Um borð í bátum úti á sjó geta orðið slys svo ég nefni sem dæmi. Og hvað ef einhver fær hjartaáfall? Það gengur ekki upp að enginn læknir sé hér í 1.700 manna byggðarlagi. Það má kalla það lán í óláni að ekkert alvarlegt hafi gerst hér á þessum læknislausu vikum. Þó ber að þakka að við höfum öflugt fólk, svo sem hjúkrunarfræðinga, sem hafa brugðist við í neyð,“ segir Kristinn.

Bæjaryfirvöld beiti sér

Staðfest er að læknir kemur til starfa í Snæfellsbæ um áramótin og mun hann flytja með fjölskyldu sinni vestur. Bæjarstjórinn segir vissulega fagnaðarefni að þá sé kominn læknir með viðveru á svæðinu. Þó þurfi fleira að koma til, því ekki sé hægt að ætlast til þess að einn maður standi læknavaktina allan sólarhringinn alla daga vikunnar.

Heilbrigðisþjónusta er verkefni ríkisins en Kristinn Jónasson segir að stundum þurfi bæjaryfirvöld að hafa afskipti af málum og beita sér. Mikilvægt sé fyrir samfélagið að öruggt aðgengi íbúa að læknisþjónustu sé tryggt. Vegna þessa hafi hann verið í stöðugum samskiptum við yfirmenn Heilbrigðisstofnunar Vesturlands en jafnframt hafi málið verið rætt við þingmenn Norðvesturkjördæmis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »