„Hending ein réði að ekki hlaust bani af“

Davíð var sakfelldur fyrir tilraun til manndráps með öxi.
Davíð var sakfelldur fyrir tilraun til manndráps með öxi. Samsett mynd

Landsréttur þyngdi í dag dóm yfir Davíð Nikulássyni fyrir tilraun til manndráps með því að hafa ráðist að öðrum manni með exi og lagt til hans í höfuð og búk. Hlaut maðurinn opinn skurð frá miðju enni að hársrót, brot á höfuðkúpu og andlitsbeinum. Einnig annan skurð yfir enni, þriðja yfir brjóstkassa og fjórða á hægri upphandlegg. Þá var maðurinn jafnframt sakfelldur fyrir vopnalagabrot með því að hafa haft fjölda vopna í fórum sínum.

Sagði öxina hafa hrokkið í andlit mannsins

Áður hafði Héraðsdómur Reykjaness dæmt manninn í fjögurra og hálfs árs fangelsi, en Landsréttur þyngdi þann dóm um eitt ár. Þá voru bætur jafnframt hækkaðar úr 1,5 milljón í 2 milljónir, auk þess sem Davíð þarf að greiða allan málskostnað, samtals um 4 milljónir fyrir báðum dómsstigum.

Davíð fór fram á sýknu og sagði öxina hafa hrokkið í andlit hins mannsins þegar hann reyndi að taka öxina af Davíð. Tóku dómstólarnir ekki undir þessa skýringu og segir þar að eggvopni hafi verið beitt gegn manninum. Segir í dómi Landsréttar að Davíð hafi framið lífshættulegan verknað og ljóst að „hending ein réði að ekki hlaust bani af.“

Var alblóðugur úti í garði

Árásin átti sér stað 31. október 2020, en tilkynnt var um árásina að kvöldi þess dags. Þegar lögregla kom á staðinn var maðurinn úti í garði ásamt tveimur íbúum hússins, en hann greindi lögreglu frá því að Davíð hefði slegið sig í höfuðið með öxi. Blæddi mikið úr sári á höfði mannsins og var hann þakinn í blóði.

Auk axarinnar fundust í íbúð mannsins tveir hnífar, annar með 17 cm blaði og hinn með 13,5 cm blaði, tveir kasthnífar, fjaðrahnífur og sverð. Lagði lögreglan hald á þessa muni. Báðir mennirnir voru undir áhrifum fíkniefna þetta kvöld.

Hringabrynja og fjöldi vopna

Mennirnir höfðu verið saman í íbúðinni sem var í eigu Davíðs. Sagðist hann hafa verið að sýna hinum hinum ýmsa safnmuni sem hann ætti, meðal annars hringabrynju, vopn og fleira. Hefði maðurinn handleikið öxina en rekið hana í mun úr fílabeini og við það hefði Davíð reiðst mikið sem leiddi til átakanna.

Hinn maðurinn sagði hins vegar að þeir hefðu verið að drekka í herberginu og að Davíð hefði talið sig hafa stolið af honum lyfjum. Hefði Davíð tekið öxina og farið að höggva í borðplötu og þá hefði hann tekið öxina af Davíð og lagt hana á borðið. Við það hafi hann rekist í fílabeinsstyttuna og við það hafi Davíð reiðst mjög og ráðist á sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert