Þrettándabrennur um allt land

Þrettándabrenna fer fram við Ægisíðu og frístundamiðstöðina Gufunesbæ í Grafarvogi.
Þrettándabrenna fer fram við Ægisíðu og frístundamiðstöðina Gufunesbæ í Grafarvogi. Árni Sæberg

Haldið verð upp á þrett­ánda og síðasta dag jóla víðsveg­ar um landið um helg­ina. þrettándabrennur verða haldnar víðsvegar um landið og má sjá lista yfir brennur.

Tvær þrettándabrennur verða haldnar í Reykjavík á morgun, þrettándann, 6. janúar 2023, við Ægisíðu og við frístundamiðstöðina Gufunesbæ í Grafarvogi.

Þrettándahátíð Vesturbæjar hefst hjá Melaskóla kl.18 þar sem Sveinn Bjarki leiðir fjöldasöng en því næst verður gengið með kyndla að brennunni á Ægisíðu í fylgd lögreglu. Borinn verður eldur að kestinum um kl. 18.30 og boðið verður upp á flugeldasýningu um kl.18.45 í samstarfi við KR-flugelda.

Fyrir þrettándabrennunni í Gufunesbæ í Grafarvogi stendur Austurmiðstöð en dagskráin hefst kl. 17 með notalegri kakó- og vöfflustund í Hlöðunni. Skólahljómsveit Grafarvogs leikur létt lög kl. 17.20 og leiðir síðan göngu frá Hlöðunni að brennu kl. 17.55. Kveikt verður í brennunni kl.18 og munu Espólín, Dóra og Döðlurnar og Friðrik Dór skemmta gestum. Þrettándagleði lýkur svo með flugeldasýningu kl.19.

Brennur í Hafnarfirði, Mosfellsbæ og í Reykjanesbæ

Í Hafnarfirði verða jólin kvödd með dansi og söng á þrettándagleði á Ásvöllum föstudaginn 6. janúar. Hátíðin hefst kl. 18 þar sem Guðrún Árný stjórnar söng og dansi af sviði. Kertasníkir, Grýla, álfar og púkar verða á sveimi á svæðinu. Hátíðinni lýkur um kl. 18:45 með flugeldasýningu Björgunarsveitar Hafnarfjarðar.

Í Mosfellsbæ verður haldin þrettándabrenna neð­an Holta­hverf­is við Leir­vog­inn. Blys­för legg­ur af stað frá Mið­bæj­ar­torg­inu kl. 17:30. Skóla­hljóm­sveit­in, Storm­sveit­in, Grýla, Leppal­úði og fleiri verða á svæð­inu. Mos­fells­bær stend­ur fyr­ir brenn­unni og björg­un­ar­sveit­in Kynd­ill verð­ur með glæsi­lega flug­elda­sýn­ingu að vanda.

Í Reykjanesbæ hefst þrettándagleðin með blysför kl. 18 frá Myllubakkaskóla þar sem gengið verður í fylgd álfakóngs, drottningar og hirðar þeirra að hátíðarsvæði við Hafnargötu 12. Þrettándabrennan verður við Ægisgötu og gestum verður boðið upp á heitt kakó til að ylja sér. Í lok dagskrár verða jólin kvödd að hætti Björgunarsveitarinnar Suðurnes með glæsilegri flugeldasýningu eins og þeim einum er lagið.

Þrettándabrennur á Vesturlandi

Á Akranesi sér björgunarfélag Akraness um brennu og flugeldasýningu við þyrlupallinn á Jaðarsbökkum og hefst dagskrá kl. 17.

Í Borgarnesi hefst dagskrá kl. 17 á kjöri Íþróttamanneskju Borgarfjarðar í Hjálmakletti. Í framhaldinu verður kyndlaganga frá Hjálmakletti að Englendingavík þar sem flugeldasýning hefst kl. 19.

Í Stykkishólmi verður þrettándabrenna við Vatnsás og hefst daskrá kl. 17:30 við golfskálann en þrettándagleði lýkur með flugeldasýningu á vegum Björgunarsveitarinnar Berserkja kl. 18:30.

Brennur á Djúpavogi og Borgarfirði eystri

Djúpavogsbúar halda Þrettándann hátíðlegan en foreldrar barna í fimmta bekki í Djúpavogsskóla sjá um brennu á Hermannastekkum kl. 17. Björgunarsveitin Bára mun bjóða upp á flugeldasýningu á sama stað. Íþróttafélagið Höttur, í samstarfi við Björgunarsveitina Hérað, stendur fyrir flugeldasýningu á Þverklettum kl. 18.

Á Borgarfirði eystri verður brenna kl. 20 við Norðurenda flugvallar. Líkur eru á að skessan Gellivör láti sjá sig.

Uppfært 6. janúar kl. 11:05

Upphaflega kom í fréttinni að hátíðarhöld færu einnig fram í Ölfusi í kvöld, en svo er ekki. Leiðréttist það hér með. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert