Missti ekki af Gettu Betur

Oddur tekur sig vel út við púltið.
Oddur tekur sig vel út við púltið. Ljósmynd/Aðsend

„Ég missti ekki af Gettu Betur þegar ég var lítill og hef alltaf dýrkað alls kyns spurningaspil,“ segir Oddur Þórðarson sem spreytti sig á dögunum sem spyrill í hinni árlegu spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu Betur.

Nýtt keppnistímabil í Gettu Betur hófst á dögunum ef þannig má að orði komast og samkvæmt venju er viðureignunum útvarpað beint á Rás 2 eða þar til komið er í 8-liða úrslit og þá taka beinar sjónvarpsútsendingar við. 

Ferlinum líklega lokið, alla vega í bili

Oddur, sem starfað hefur síðasta árið sem fréttamaður á RÚV, vill nú ekki gera of mikið úr sínu hlutverki og segist einungis hafa hlaupið í skarðið þar sem Kristjana Arnarsdóttir hafi mörgum hnöppum að hneppa í Efstaleitinu. Hún muni birtast á skjánum þegar þar að kemur eins og síðustu ár. 

„Þetta kom þannig til að Kristjana Arnarsdóttir, sem er aðdáendum að góðu kunn, er að sinna öðrum brýnum verkefnum. Nú er HM í handbolta að byrja og flest spjót beinast að íþróttadeildinni um þessar mundir. Hún hefur verið í verkefnum varðandi handboltann og var þá brugðið á það ráð að dómarar og spurningahöfundar myndu skipta því með sér að spyrja í fyrstu umferð keppninnar.

Stýrihópur Gettu Bettur taldi hins vegar ráðlegast að sami spyrill væri öll keppniskvöldin í sömu umferðinni. Samræmi þyrfti að vera í því þar sem þrjú stigahæstu tapliðin fara áfram í 16-liða úrslitin. Ekki væri gott ef spyrillinn væri hraður hjá sumum liðum en kannski hægur hjá öðrum og þess vegna var ég fenginn í þetta tímabundið. Ég var spyrill í þrjá daga í þessari viku og þá er líklega ferli mínum sem spyrli í Gettu Betur lokið, alla vega í bili,“ útskýrir Oddur sem er afskaplega ánægður með að hafa komið að keppninni með þessum hætti því hann hafi lengi verið áhugasamur um Gettu Betur. 

MR sigraði í Gettu Betur árið 2022 og á því …
MR sigraði í Gettu Betur árið 2022 og á því hljóðnema að verja. mbl.is/Árni Sæberg

Snérist í kringum liðið á menntaskólaárunum

„Mér þykir mikill heiður að vera boðið þetta hlutverk enda hef ég lengi verið aðdáandi keppninnar. Á mínum menntaskólaárum í MR var ég að snúast í kringum liðið. Ég var ekki í liðinu hjá MR en var svokallaður liðsstjóri ásamt Þorsteini Davíð vini mínum.

Þá fékk ég útrás fyrir þennan áhuga en áður hafði ég spilað Trivial Pursuit við fjölskyldu og vini eins mikið og fólk nennti að spila við mig. Það var því ánægjulegt að taka þátt í Gettu Betur með þessum hætti þar sem ég hef haldið mikið upp á keppnina í öll þessi ár,“ segir Oddur og hrósar starfsfólki keppninnar. 

„Mér fannst gott að vinna með Laufeyju, Jóhanni og Helgu Margréti enda eru þau æðislega skemmtileg. Ég þekkti Jóhann og Helgu aðeins áður en var að kynnast Laufeyju. Þau eru frábærir spurningahöfundar auk þess að vera góðir dómarar. Keppnin er í góðum höndum hjá þeim en ég áttaði mig almennilega á því núna hversu mikilvægt hlutverk dómara og spurningahöfunda er. Allt þarf þetta að vera slétt og fellt.

Þegar komið er í beina útsendingu í útvarpi og sjónvarpi þá þurfa dómararnir að vera með bein í nefinu, til dæmis  þegar sannreyna þarf einhver atriði eða kalla aftur eftir svörum sem voru gefin.“  

Væri að skemma margra mánaða vinnu

Keppnisharkan hefur oft verið mikil í Gettu Betur í gegnum áratugina og spennan getur verið mikil í slíku útsláttarfyrirkomulagi. Var Oddur stressaður þegar á hólminn var komið? 

„Ég verð að viðurkenna að sú hugsun læddist að mér að ég væri að skemma margra mánaða vinnu fyrir ungmennum úti í bæ ef mér yrði á. Þessu fylgir því ábyrgð en ég vona að ég hafi staðið mig ágætlega. Á heildina litið fer keppnin vel af stað og nú taka við mjög spennandi viðureignir í 16-liða úrslitunum sem hefjast á mánudaginn.

Þar mætast sterk lið og verður hart barist um að komast í 8-liða úrslitin í sjónvarpinu,“ segir Oddur Þórðarson í samtali við mbl.is en fyrir þá hlustendur sem þótti röddin kunnugleg þá má geta þess að Oddur léði nýlega Jósafat Arngrímssyni rödd sína í útvarpsþáttunum Joe Grimson sem vakið hafa talsverða athygli að undanförnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert