Fjölskylda nánast einangruð það sem af er janúar

100 þúsund rúmmetrar af ís eru taldir liggja í Hafralónsá …
100 þúsund rúmmetrar af ís eru taldir liggja í Hafralónsá í Þistilfirði. Ljósmynd/Vegagerðin

„Það er því miður ekkert að gerast í þessu. Um er að ræða hættulegar aðstæður sem enginn virðist treysta sér í,“ segir Heimir Gunnarsson hjá Vegagerðinni um stöðuna í Hafralónsá í Þistilfirði, sem flæddi yfir veginn á gamlársdag og hefur haldið honum lokuðum síðan.

„Það er búið að reyna að kortleggja þetta eins og hægt er og skoða þetta fram og til baka. Verktakarnir á svæðinu treysta sér ekki með vélar út á klakann að svo stöddu, því miður. Að fara að fást við náttúruna er bara brandari,“ segir Heimir.

Á breyttum jeppum yfir klaka- og snjóalög

Krapa­stífla í ánni hef­ur gert það að verk­um að hún flæddi yfir veg­inn með þessum afleiðingum. Ævar Rafn Marinós­son og Margrét Eyrún Níelsdóttir hafa nánast verið einangruð ásamt börnum sínum og foreldrum Ævars á bænum Tunguseli í Þistilfirði í að verða þrjár vikur.

Það er fjölskyldunni til happs að Ævar og eldri sonur hans eru mjög vanir fjallaferðamennsku. Tekist hefur að opna einskonar hjáleið yfir Kverká og yfir klaka- og snjóalög upp að Tunguseli.

„Það fara ekki venjulegir jeppar þarna yfir og það verður að keyra í björtu. Við erum með tvo mikið breytta bíla á 44 tommu dekkjum og erum mjög vanir fjallamennsku,“ segir Ævar.

Björn Sigurbjörnsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Vopnafirði og í Þórshöfn, segir verið að leita lausna til að gera veginn færan. Hann segir að menn bíði hlákunnar og voni Það besta.

„Það hefur verið slæm tíð og vont skyggni sem hefur alls ekki hjálpað en það hefur sem betur fer verið fært að Tunguseli með slóðanum yfir Kverká en það er ekki vegur svo staðan er auðvitað ekki ákjósanleg. Þá getur færð og skyggni spillst í miklu hríðarfari,“ segir Björn.

100 þúsund rúmmetrar af ís

Sigurður Þór Guðmundsson, oddviti í Svalbarðshreppi, segir að staðan sé skoðuð daglega og leitað hafi verið ráða hjá ansi mörgum.

Aðspurður hvort staðan hafi breyst frá gamlársdag sagðist Sigurður hafa skoðað aðstæður fyrst fljótlega eftir áramót og síðast um miðjan janúar og á því tveggja vikna tímabili hafi staðan lítið breyst. Hann segist ekki eiga von á að vandamál skapist í hlákunni framundan. því Hafralónsáin renni stöðugt undir klakabreiðunni.

„Hafralónsáin rennur stöðugt undir klakabreiðunni. Þetta eru sennilega um 100 þúsund rúmmetrar af ís. Þetta er alls ekki einföld staða.“

Sams konar krapastífla myndaðist síðast í Hafralónsá árið 1981 eða fyrir meira en fjörutíu árum.

„Þá reyndu menn ýmislegt og sagan segir að þá hafi þeir tapað einni jarðýtu þarna ofan í og náðu henni svo upp úr og hundskömmuðust sín yfir því hvað þeir voru að gera. Svo var ekkert hugsað um það meir,“ segir Sigurður.

mbl.is