„Læknar hafa upplifað hótanir frá sjúklingum“

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands.
Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

„Læknar hafa upplifað hótanir frá sjúklingum að þeir muni fara í fjölmiðla ef ekki sé gert nákvæmlega eins og þeir vilji.“ Þetta segir Steinunn Þórðardóttir, formaður læknafélags Íslands, í samtali við mbl.is og bendir á að fólk sé meðvitað um að heilbrigðisstarfsfólk geti ekki varið sig vegna þagnarskyldu sem hún tekur jafnframt fram að sé gríðarlega mikilvæg til þess að heilbrigðisstarfsfólki sé treyst.

„Það er mikill fælingarmáttur í því að fólk skuli hóta læknum á þennan hátt og er óhugnanlegt þegar litið er til mönnunar í heilbrigðiskerfinu. Í einhverjum tilvikum treystir fólk sér ekki til þess að vinna í þessu umhverfi þar sem það getur átt yfir höfði sér að vera hótað.

Í lagaumhverfinu á Íslandi er óljóst hvort þagnarskyldunni sé aflétt ef aðstandendur kjósi að ræða mál opinberlega. Það þarf að láta reyna á þetta fyrir dómi en það hefur hingað til enginn heilbrigðisstarfsmaður treyst sér til þess að fara þá leið,“ segir Steinunn.

Endurskoða þarf ferli um ásakanir á hendur heilbrigðisstarfsfólks

Spurð hvort ferli um ásakanir á hendur heilbrigðisstarfsfólks þarfnist endurskoðunar segir hún svo vera og kallar eftir því að sett verði á stofn rannsóknarnefnd alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu.

„Við höfum séð það fyrir okkur að rannsóknarnefndin væri að fyrirmynd rannsóknarnefndar samgönguslysa og tryggi skilvirka og faglega afgreiðslu alvarlegra atvika. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að í langflestum tilvikum verða alvarleg atvik útaf kerfislægum þáttum, þ.e. fleiri en einum þætti sem yfirleitt tengjast aðbúnaði á vinnustað.

Það er mikilvægt að atvik sem koma upp séu rannsökuð ofan í kjölinn til þess að hægt sé að koma í veg fyrir að þau endurtaki sig. Við erum ekki á nokkurn hátt að biðja um að vera undanþegin landslögum, við viljum einungis tryggja að heilbrigðisstarfsfólk veigri sér ekki við að tilkynna alvarleg atvik vegna ótta við málsmeðferðina eða fjölmiðlaumfjöllun,“ segir Steinunn.

mbl.is