Akureyrskir kettir eru frjálsir ferða sinna

Í nóvember árið 2021 samþykkti meirihlutinn að banna alfarið lausagöngu …
Í nóvember árið 2021 samþykkti meirihlutinn að banna alfarið lausagöngu katta í bænum frá og með 1. janúar 2025. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fallið hefur verið frá fyrirhuguðu útgöngubanni katta að næturlagi á Akureyri. Þetta ákvað meirihluti bæjarstjórnar fyrir jól að sögn Heimis Arnar Árnasonar, forseta bæjarstjórnar. 

Í nóvember árið 2021 samþykkti meirihlutinn að banna alfarið lausagöngu katta í bænum frá og með 1. janúar 2025. 

Nokkrum mánuðum síðar var hins vegar ákveðið að lausagangan yrði aðeins bönnuð að næturlagi, frá miðnætti og til sjö á morgnana.

Tengist ekki gríni í skaupinu

Var þessi ákvörðun meðal annars tekin fyrir í síðasta áramótaskaupi og gert grín af því að erfitt væri að kenna köttum á klukku. 

En eins og áður sagði var ákvörðunin tekin fyrir jól og segir Heimir því í samtali við mbl.is að skaupið hafi ekki haft áhrif á ákvörðunina. 

Hann segir að lítið hafi verið aðhafst í málinu í bæjarstjórn og því ákveðið að falla frá ákvörðuninni í bili. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert