Ragnar Þór fram á ný

Ragnar Þór sækist eftir endurnýjuðu umboði félagsmanna VR.
Ragnar Þór sækist eftir endurnýjuðu umboði félagsmanna VR. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hyggst bjóða sig fram til áframhaldandi formennsku stéttarfélagsins í kosningum sem fram fara í mars. Greinir hann frá þessu á Facebook-síðu sinni.

Þrátt fyrir neikvæða umræðu um verkalýðshreyfinguna stendur VR ákaflega vel. Starf stjórnar og skrifstofu VR hefur verið framúrskarandi gott og einkennst af mikilli samheldni og virðingu,“ skrifar Ragnar.

Félagsaðild hafi í fyrsta sinn farið yfir 40.000 manns í fyrra sem geri félagið að stærsta stéttarfélagi landsins. Kveður Ragnar félagið munu halda áfram þeirri góðu vinnu sem unnin hafi verið til að koma betur til móts við breytingar á vinnumarkaði og ólíkar þarfir ólíkra hópa.

Áherslan áfram á bætt kjör

Segir hann mikla orku hafa farið í innbyrðis átök á vettvangi Alþýðusambands Íslands og sé hreyfingin þverklofin.Ég trúi því að hreyfingunni beri gæfa til að vinna sig í gegnum þessa stöðu á komandi framhaldsþingi ASÍ og mun ég leggja mitt af mörkum svo það megi verða,“ skrifar Ragnar.

Hann segir sínar áherslur áfram verða að halda áfram að bæta kjör og réttindi félagsfólks og berjast fyrir réttlátara samfélagi auk þess að veita stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald. Þegar sé hafin vinna við gerð langtímakjarasamnings og fram undan séu viðræður um styttingu vinnuvikunnar, fjölgun orlofsdaga og fjarvinnu. Stóra málið snúist þó um húsnæði.

„VR er að hefja framkvæmdir við byggingu leiguíbúða fyrir félagsfólk VR í gegnum Blæ, sem er nýtt húsnæðisfélag sem er ætlað til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði án tekjumarka. Hugmyndafræðin í kringum Blæ er að höfða til fjárfestinga lífeyrissjóða inn á húsnæðismarkað og hef ég leitt það verkefni á vettvangi hreyfingarinnar sem og frekari uppbyggingu Bjargs fyrir tekjulága,“ skrifar formaðurinn.

Þakklæti fyrir stuðning gegnum árin

Kveðst hann munu berjast áfram gegn spillingu í íslensku samfélagi en fyrst og fremst einbeita sér að því frábæra starfi sem stjórn og starfsfólk VR hafi unnið á vettvangi réttlætis og kjarabaráttu.

„Ég er ákaflega þakklátur fyrir þann mikla stuðning sem ég hef fengið frá ykkur í gegnum árin í þessari vegferð minni á vettvangi réttlætisbaráttunnar og vona ég að svo verði áfram,“ eru lokaorð Ragnars til stuðningsfólks og biður hann að lokum fyrir baráttukveðjur.

mbl.is