Mygla og fúsk víða í nýlegum byggingum

Ólafur H. Wallewik stendur fyrir ráðstefnunni, sem haldin er til …
Ólafur H. Wallewik stendur fyrir ráðstefnunni, sem haldin er til heiðurs dr. Ríkharði Kristjánssyni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rætt verður um rakaskemmdir, myglu og fúsk í nýlegum byggingum á ráðstefnu um byggingagalla í Háskólanum í Reykjavík kl. 13 í dag.

„Byggingagallar í nýlegum byggingum kosta marga milljarða á ári,“ segir dr. Ólafur H. Wallewik, prófessor við HR, sem stendur fyrir ráðstefnunni. Segir hann meginmarkmið ráðstefnunnar vera að vekja athygli á göllum sem kunna að verða á byggingu nýrra húsa, eða á viðhaldi – fúski í rauninni.

Segir Ólafur stóra vandamálið það hversu títt við eigum það til að taka inn lausnir að utan án þess að gera okkur grein fyrir að veðráttan hér á Íslandi sé af öðrum toga. 

„Það er svoddan rokrass hér,“ bætir Ólafur við og biðst innilega afsökunar á orðbragðinu.

Flöt þök í lagi ef rétt er farið að

Athygli vakti á föstudag þegar rigndi inn í Fossvogsskóla, en nýlega voru unnar miklar endurbætur á skólanum sökum myglu sem þar fannst.

Spurður hvort flöt þök, á borð við þak Fossvogsskóla, eigi hreinlega við hér á landi sökum veðurs svarar Ólafur að þrátt fyrir að flöt þök hafi oft og tíðum skapað vandamál, sér í lagi þegar þau skutu hér fyrst upp kollinum, séu vönduð handtök aðalatriðið.

Það rigndi inn í Fossvogsskóla á föstudaginn.
Það rigndi inn í Fossvogsskóla á föstudaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Flöt þök eiga alveg að vera góð lausn ef rétt er gert,“ segir hann en áréttar að ef vel ætli að takast hér á landi skipti rannsóknarvinna, og þar langtímarannsóknir einna helst, miklu máli. Meira fjármagn mætti fara í þá vinnu, að mati Ólafs.

Rannsóknarstofa byggingariðnaðarins var lögð niður árið 2021 en um svipað leyti var kynntur nýr sjóður: Askur. Segist hann vera þakklátur stjórnvöldum að stofna nýjan sjóð, en sjóðurinn sé þó lítill. Um sé að ræða brauðmola sem margur fuglinn berjist um.

Myglan ekki bara í skólum

Þá segir Ólafur að mygla, eða „örveruefnasúpa“ eins og oft sé talað um í því samhengi, sé mun tíðari í íslenskum byggingum en við gerum okkur grein fyrir.

Segir hann nýlegar rannsóknir benda til þess að um 2-3% einstaklinga veikist alvarlega af þeim sökum og um 19% verði veik. Fleiri einstaklingar geti fundið fyrir einkennum, sem Alma Möller landlæknir muni útlista í erindi sínu undir heitinu „Hús og heilsa“.

Ráðstefnan verður í Háskólanum í Reykjavík kl. 13 í dag. …
Ráðstefnan verður í Háskólanum í Reykjavík kl. 13 í dag. Streymi má finna hér á mbl.is. Ljósmynd/Háskólinn í Reykjavík

„Gallinn við rakaskemmdir er að þú sérð bara toppinn á ísjakanum,“ segir Ólafur.

Að hans mati gerum við oft og tíðum bara við það sem við sjáum. Ástæðan fyrir því að mygla virðist eins tíð í skólum og raun ber vitni sé vegna þess að foreldrar passi vel upp á eftirlit með byggingum þar sem börnin þeirra dvelja. 

„Það er ekki þar með sagt að það sé ekki sama ástand í skrifstofuhúsnæði eða í heimahúsum.“

Ráðstefnan fer fram í húsakynnum Háskólans í Reykjavík – stofu V101 nánar tiltekið. Þá verður ráðstefnan einnig í beinu streymi hér á mbl.is.

Nánar má lesa um ráðstefnuna á Facebook-viðburðinum hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert